Skip to main content

Fréttir

Íslenskur námsorðaforði hlaut Vísinda- og nýsköpunarverðlaun 2023

Tvær konur með blóm og viðurkenningarskjal ásamt tveimur körlum stilla sér upp fyrir mynd.
Kristinn Andersen formaður dómnefndar, Auður Pálsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Kristinn Ingvarsson

Vísinda- og nýsköpunarverðlaunin 2023 voru afhent við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands 22. maí.

Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands eru veitt fyrir nýstárlegar hugmyndir sem kunna að stuðla að samfélagslegum eða viðskiptalegum ávinningi. Samkeppnin um verðlaunin er opin starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands en þau hafa verið veitt frá árinu 1998. Í ár voru verðlaun afhent í eftirfarandi flokkum: Heilsa og heilbrigði, Tækni og framfarir, Samfélag og Hvatningarverðlaun. 

Verkefnið „Íslenskur námsorðaforði og stigvaxandi fjölbreytni íslenskrar tungu: Markvissir kennsluhættir í grunn- og framhaldsskólum“ hlaut verðlaun að upphæð 1,5 milljón króna í flokknum Samfélag. Að verkefninu standa Sigríður Ólafsdóttir og Auður Pálsdóttir, dósentar við Deild faggreinakennslu, og Hanna Óladóttir, lektor við sömu deild. Verkefnið er unnið í samstarfi við fræðimenn hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Hugvísindasvið HÍ og sérfræðinga hjá Menntamálastofnun. 

Um verkefnið segir á vef Háskóla Íslands: „Tilgangurinn með verkefninu er að bregðast við hnignandi lesskilningi íslenskra nemenda og áskorunum í menntun nemenda með annað móðurmál en íslensku. Verkefnið byggist á nýjum lista yfir íslenskan námsorðaforða. Þekking á slíkum orðaforða er nauðsynleg til þess að nemendur nái að skilja og fjalla um viðfangsefni námsins. Rannsóknarverkefnið felur einnig í sér ritun gæðatexta með námsorðaforðanum og kennsluleiðbeiningar sem ætlaðar eru í kennslu grunn- og framhaldsskólanema sem læra íslensku sem annað tungumál. Unnið er með stigvaxandi fjölbreytni í orðaforða, lesskilningi, umræðu- og ritunarfærni sem saman leggja mikilvægan grunn að námsframvindu nemenda. Hluti af verkefninu er íslenskt námsorðaforðapróf sem er hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi og gefur möguleika á að kortleggja íslenskan orðaforða grunnskólanema.“