Skip to main content

Fréttir

Íslenskunemi og kennari hans spjalla á fjöltyngisráðstefnu

Um næstu helgi verður haldin í Hörpu ráðstefna fyrir fjöltyngda sem ber yfirskriftina Polyglot. Í tengslum við ráðstefnuna stendur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir hraðnámskeiði í íslensku fyrir áhugasama en líklegt er að á ráðstefnunni verði margir sem láta sig ekki muna um að bæta íslensku við langan lista þeirra tungumála sem þeir hafa eitthvert vald á.

Daniel Tamet og Sigríður Kristinsdóttir íslenskukennari flytja erindi saman á Polyglot ráðstefnunni í Hörpu 27.-29. október 2017.

 

Eitt umræddasta hraðnámskeið í íslensku sem spurnir fara af er vafalítið það sem íslenskukennarinn Sigríður Kristinsdóttir tók að sér að kenna þegar hingað komu heimildamyndagerðarmenn frá BBC sem fylgdu hinum sérgáfaða Daniel Tammet eftir í nokkra daga á Íslandi. Sigríður er einmitt kennari á hraðnámskeiðinu sem tengist Polyglot ráðstefnunni í Hörpu.

 

Talnameistari lærir tungumál

Sigríður Kristinsdóttir rifjar upp hvernig þetta óvenjulega íslenskunámskeið kom til árið 2004:

„Daniel Tammet vakti fyrst athygli fyrir að geta farið með aukastafi tölunnar pí (π) eftir minni. Sú þula tók hann rúmlega fimm klukkustundir og var hann þá kominn í 22.514 aukastafi. Hann hefði getað haldið lengi enn áfram en honum fannst mestu skipta að hætta á fallegri tölu því að það er annað einkenni á samneyti Tammets við tölur að það byggist á fegurð og ríkri tilfinningu. Hann sér tölur sem bæði liti og form, jafnvel áferð. Þegar hann reiknar út flókin dæmi notar hann ekki sömu aðferð og „venjulegt fólk“ heldur sér tiltekin form umbreytast í önnur form sem eru þá útkoman. Daniel býr yfir hæfileika sem nefnist samskynjun (e. synaesthesia).

Þessi óvenjulega sýn Daniels á tölur varð til þess að dagskrárgerðarmenn frá BBC vildu fá að gera sjónvarpsþátt um hann og einstaka hæfileika hans. Myndin fékk nafnið Brain man og gekk út á að Daniel voru fengin alls kyns verkefni sem reyna á minnið og það síðasta og erfiðasta var að læra íslensku á einni viku. Hann lærði hana fyrst sjálfur í þrjá daga á Englandi en dvaldi síðan á Íslandi í fjóra daga. Lokaverkefni hans var að fara í viðtal í beinni útsendingu í Kastljósi. Það var í því verkefni sem leiðir okkar Daniels lágu saman og ég var kennari hans þessa daga. Það var líklega búið að skrifa inn í handritið viðtal við kennara sem segir að þetta sé ómögulegt en strax þegar ég hitti Daniel eftir þriggja daga nám var mér ljóst að hann var langt fyrir utan alla venjulega skala og ég hafði ekki áhyggjur af því að hann myndi ekki spjara sig í viðtalinu. Daniel heillaðist mjög af íslensku, sérstaklega því hversu myndræn og gagnsæ hún er sem höfðar til þess hvernig hann skynjar heiminn. Orð eins og hugmynd og ljósmóðir eru dæmi um orð sem hann féll fyrir og hann var bráðfljótur að leika sér að málinu og búa til ný orð eins og orðabóndi og orðafoss og„á hugarflugi mínu“. Þetta var kjarninn í því hvernig við nálguðumst málið. Við lékum okkur með það og þetta var hrikalega skemmtilegt og gefandi.“

 

Halda enn sambandi og tala saman á íslensku

Sigríður segir að aðstæður til kennslu hafi þó ekki verið sérlega góðar þar sem þau voru allan tímann á ferðalagi um Ísland með myndavélarnar sveimandi í kring. Íslenska var valin vegna þess að það var talið erfitt tungumál að læra og landið bauð upp á áhugavert myndefni, óvenjulega náttúru og framandleika og það var það sem kvikmyndagerðarmennirnir voru á höttunum eftir en ekki að skapa kjöraðstæður fyrir Daniel til að einbeita sér að íslenskunámi.

„Daniel notaði ekki hefðbundnar kennslubækur. Hann nálgaðist íslensku í gegnum barnabækur, samtöl og orðabækur. Við lásum saman bókina Blómin á þakinu eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur. Daniel er einhverfur en ég tók ekkert eftir því þar sem við gleymdum okkur í því að takast á við þetta óvenjulega verkefni að læra tungumál á svona stuttum tíma.

Við höfum haldið góðu sambandi síðan þetta örnámskeið var haldið þarna í bílnum og þegar við hittumst tölum við alltaf íslensku þegar kostur er. Á Polyglot-ráðstefnunni ætlum við að rifja upp þennan tíma og tala saman um það sem er heillandi við tungumál en þeir sem sækja ráðstefnuna er mjög sérstakur hópur sem á það sameiginlegt að elska að læra ný tungumál þótt ekki henti sömu kennsluaðferðir öllum. Nemendur eru svo ólíkir, sumir vilja bara harðkjarnamálfræði strax en aðrir vilja vera úti á götu að tala frá fyrsta degi. Örnámskeiðið í samstarfi við Árnastofnun verður í þrjá daga og það verður spennandi að sjá í hvaða ævintýri íslenskan leiðir þessa þrautþjálfuðu tungumálaunnendur.“