Skip to main content

Fréttir

„Íslenskukennsla og vefurinn“ 27. janúar

Rannsóknarstofa um íslensk fræði og íslenskukennslu heldur málþing um íslenskukennslu og vefinn þann 27. janúar næstkomandi í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð/Háteigsveg. Þar munu fulltrúar ýmissa stofnana kynna það starf sem þar er unnið og tengist íslenskukennslu á vef. Um er að ræða mikla fjölbreytni og samband við alla aldurshópa, allt frá nemendum á leikskólaaldri til háskólanema og starfandi fólks um allt land. Íslendingar jafnt sem útlendingar og innflytjendur njóta þess starfs sem unnið er á þessum vettvangi.

Fyrirlesarar munu kynna ýmsa nýbreytni í starfsemi stofnana sinna. Hvernig hefur þetta kennsluform nýst? Hvert stefnir og hvaða möguleikar bjóðast í náinni framtíð? Hvernig er fjárhaglegur grundvöllur starfseminnar?

Margir hafa haldið því fram að undanförnu að íslenskan eigi undir högg að sækja. Fróðlegt verður að heyra raddir þeirra sem sinnt hafa íslenskukennslu á vefnum: Er vefkennsla líkleg til að auka veg íslenskunnar, styrkja stoðir hennar?

15:00. Setning: Sigurður Konráðsson forseti Íslenskustofu – rannsóknarstofu um íslensk fræði og íslenskukennslu.
15:05. Sigurbjörg Jóhannesdóttir sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu: Íslenska sem annað tungumál.
15:25. Páll Guðbrandsson markaðsstjóri hjá Skólavefnum: Skólavefurinn og fjarkennsla í íslensku, einkum á grunnskólastigi.
15:45. Ingólfur Steinsson ritstjóri hjá Námsgagnastofnun: Námsefni í íslensku á vefnum.
16:05. Úlfar Snær Arnarson kennari, Fjölbrautaskólanum við Ármúla: Fjarnám á framhaldsskólastigi í íslensku: Nýjungar og framtíðarhorfur.
16:25. Kolbrún Friðriksdóttir aðjunkt í íslensku fyrir erlenda stúdenta, Háskóla Íslands: Icelandic Online.
16:45. Helga Birgisdóttir doktorsnemi, stundakennari í íslensku við Menntavísindasvið HÍ: Um vefsvæði og hlutverk Íslenskustofu í upplýsingamiðlun.
17:00. Þingi slitið.