Skip to main content

Fréttir

Íslenskt orðanet stóraukið

Vefsíðan www.ordanet.is hefur nú verið endurnýjuð með stórauknu og fjölbreyttara efni til kynningar á verkefninu Íslenskt orðanet sem Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir vinna að ásamt aðstoðarmönnum. Meginviðfangsefni verkefnisins er merkingarleg greining og flokkun íslensks orðaforða, jafnt stakra orða sem (fastra) orðasambanda. Í því efni sem nú birtist fer mikið fyrir orðasamböndum, einkum sagnasamböndum af ýmsu tagi, en merkingarvenslum fjölmargra nafnorða og lýsingarorða eru einnig gerð skil. Samheita- og andheitavensl eru í brennipunkti en merkingarlegur skyldleiki er jafnframt rakinn á víðtækari hátt.

Tekið skal fram að orðanetið er hvergi nærri fullbúið og verður vonandi hægt að bæta við nýju efni á vefsíðunni áður en langt um líður. Þá er rétt að hafa í huga að efnið kemur nú beint af verkstæðinu, svo að notendur munu óhjákvæmilega rekast á ýmislegt sem lagfæra þarf og betur má fara.

Vefsíða orðanetsins hefur nú að geyma um það bil 130.000 flettur (stök orð og orðasambönd).