Skip to main content

Fréttir

Íslenskt orðanet í nýjan búning

Íslenskt orðanet hefur verið fært í nýjan búning og kemur nú fram í nýrri útgáfu á vefslóðinni ordanet.arnastofnun.is. Efnisgrunnur orðanetsins er enn hinn sami og notendur ganga áfram að þeim upplýsingum um vensl orða og samhengi orðanotkunar sem þeir þekkja frá fyrri gerð. En í nýju útgáfunni er lögð meiri áhersla á myndræna framsetningu og myndrit sem birta heillegri og margþættari mynd af merkingarvenslum einstakra flettna, jafnt stakra orða sem merkingarbærra orðasambanda. Vensl hverrar flettu eru rakin lengra en áður og með því fæst aukin yfirsýn um stærri merkingarsvið. Þá gefst notendum kostur á að rekja hvernig venslum tiltekinna tveggja flettna er háttað með tilliti til mismunandi venslategunda.

Nýrri vefsíðu fylgir einnig það nýmæli til kynningar á efni og einkennum orðanetsins að á hverjum degi birtist nýtt orð eða merkingarbært orðasamband undir heitinu Fletta dagsins.

Trausti Dagsson hefur annast útfærslu vefsíðunnar og mótað meginhugmyndina um gerð hennar í samvinnu við höfund orðanetsins, Jón Hilmar Jónsson. Orðanetið hefur nú að geyma um 200 þúsund flettur og jafnt og þétt bætist við meira efni með nýrri greiningu.