Málræktarþing Íslenskrar málnefndar og Mjólkursamsölunnar: Íslenska til alls – Tillögur að íslenskri málstefnu fór fram á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Hátíðin var skemmtileg, fróðleg og hátíðleg.
Fyrri hluti þingsins var tileinkaður tillögum Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu þar sem aðalmarkmiðið er að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Tillögurnar eru settar fram í ellefu köflum og snerta mikilvægustu svið þjóðlífsins að mati nefndarinnar. Tillögunum var dreift á þinginu, útgáfan sem nefnist: Íslenska til alls er aðgengileg og góð lesning fyrir alla um mikilvægi tungumáls.
Íslensk málnefnd hélt ellefu málþing fyrr á árinu, eitt fyrir hvert svið þjóðlífsins með áhugasömum samstarfsaðilum á hverju sviði. Hér má fá yfirlit yfir málþingin og um leið hvernig kaflarnir ellefu skiptast í útgáfunni: Íslenska til alls.
Íslenskt notendaviðmót fyrir Windows stýrikerfi og Office pakkann var kynnt á þinginu en það hefur fengist ókeypis um langt skeið.
Menntamálaráðherra afhenti Herdísi Egilsdóttur kennara verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2008. Herdís kenndi við Ísakskóla í 45 ár auk þess sem hún hefur samið fjölbreytt efni fyrir börn, fyrir útvarp, sjónvarp og leikhúsin.
Ráðherra veitti einnig tvær sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu. Önnur var veitt Landnámssetri Íslands í Borgarnesi og hina fékk Útvarpsleikhúsið.
Skólakór Kársness, 2. og 3. bekkur, söng skemmtilega fyrir gesti undir styrkri stjórn Þórunnar Björnsdóttur. Alma Ágústsdóttir og Þórdís Hulda Árnadóttir grunnskólanemendur lásu upp ljóð og texta með tilþrifum. Í lok hátíðar bauð Mjólkursamsalan upp á veitingar.