Föstudaginn 4. október sl. var íslensk-þýska veforðabókin LEXÍA opnuð við hátíðlega athöfn á 40 ára afmæli deildar skandinavískra fræða við háskólann í Vínarborg.
Orðabókin, sem enn er í vinnslu, er samvinnuverkefni Árnastofnunar og Vínarháskóla sem hafist var handa við snemma árs 2018. Samkoman hófst á að Stephan Müller, deildarforseti menningar- og textafræðideildar háskólans, bauð gesti velkomna og Roger Reidinger, deildarstjóri skandinavískra fræða, ávarpaði samkomuna. Því næst tók sendiherra Íslands í Austurríki, Helga Hauksdóttir, til máls.
Í kjölfarið hélt Halldóra Jónsdóttir erindi um íslensk-skandinavíska orðabókarverkefnið ISLEX sem LEXÍA byggist á og Branislav Bédi ræddi þýðingu orðabóka fyrir tungumálanám. Þá tók Eleonore Guðmundsson, verkefnis- og aðalritstjóri þýska hlutans, til máls og greindi frá aðdraganda þess að hafist var handa við orðabókarsmíðina. Hún kynnti samverkamenn sína, þýðendurna Hartmut Mittelstädt, fyrrverandi íslenskukennara við háskólann í Greifswald, og Ágúst Lúðvíksson, forritara í Karlsruhe. Einnig þakkaði hún sérstökum ráðgjafa verkefnisins, Robert Nedoma, prófessor í norrænum fræðum við Vínarháskóla.
Samkomunni lauk á menningarlegum nótum og lásu þær Sybil Urbancic og Eleonore Guðmundsson ljóð eftir móður Sibyl, Melittu Urbancic, á frummálinu og í þýðingu Sölva Björns Sigurðssonar. Þá lék nemendahljómsveitin Das kleine Ø eitt lag og að lokum söng Magnús Kiljan Guðmundsson Draumalandið á einstaklega fallegan hátt. Magnús bætti um betur og fékk gamlan félaga sinn úr Vínardrengjakórnum á svið og sungu þeir fallegan dúett til Eleonore, móður Magnúsar.
Að dagskrá lokinni bauð íslenska sendiráðið upp á veitingar.


