Skip to main content

Fréttir

Íslensk stafsetningarorðabók með eigin vefsíðu

Íslensk stafsetningarorðabók (ÍS) er komin með eigin vefsíðu. Áður var bókin aðeins aðgengileg innan vefgáttanna málið.is og snara.is.

Ýmsar nýjungar í birtingu efnis eru á hinni nýju vefsíðu: efnisflokkar, orðskipting, sýnd er merking og uppruni vandritaðra orða og framsetningin er tengd náið við ritreglur Íslenskrar málnefndar. Ef ritun orðs tengist grein í reglunum er hægt að ýta á númer hennar og opnast þá viðeigandi ritregla í ramma. Sjá til dæmis hér.

Nánar má lesa um verkið og sögu orðabókarinnar hér.

Íslensk stafsetningarorðabók (áður Stafsetningarorðabókin) er opinber réttritunarorðabók um íslensku. Hlutverk hennar er að leiðbeina um rithátt og beygingar í samræmi við hefðbundin viðhorf um vandað ritmál. Fyrsta útgáfa orðabókarinnar (Dóra Hafsteinsdóttir (ritstj.) 2006. Stafsetningarorðabókin. Rit Íslenskrar málnefndar 15 var unnin á Íslenskri málstöð en Árnastofnun hefur séð um orðabókina síðan 2006.

Ritstjóri ÍS er Jóhannes B. Sigtryggsson, rannsóknarlektor á málræktarsviði Árnastofnunar. Trausti Dagsson, verkefnisstjóri í upplýsingatækni á stofnuninni, skipulagði notendaviðmótið ásamt ritstjóra og hannaði vefsíðuna.