Skip to main content

Fréttir

Íslensk máltækni á Bessastöðum

Undanfarin ár hefur fjöldi fólks á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og fleiri stofnununum unnið að því að þróa og efla máltækni fyrir íslensku. Starfið á Árnastofnun hefur gegnt veigamiklu hlutverki í því að tölvur geti greint og unnið með íslenskt mál.

Sú vinna heldur áfram, meðal annars í máltækniáætlun stjórnvalda sem lýkur í haust, og í öðrum verkefnum. Forseti íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heiðraði hópinn á dögunum og bauð honum til móttöku á Bessastöðum en í maímánuði fór forseti fyrir íslenskri sendinefnd sem hélt á fund fulltrúa nokkurra stórfyrirtækja í Bandaríkjunum á sviði samfélagsmiðla, gervigreindar og upplýsingatækni. Þar var vakin athygli á nauðsyn þess að tungumál heimsins fái þrifist í stafrænum heimi. Forseti þakkaði sérstaklega Eiríki Rögnvaldssyni, Guðrúnu Nordal, Kristínu Bjarnadóttur, Sigrúnu Helgadóttur og lykilstarfsmönnum í máltækniáætlun, þeim Önnu Björk Nikulásdóttur, Antoni Karli Ingasyni, Hrafni Loftssyni, Jóni Guðnasyni, Steinþóri Steingrímssyni og Vilhjálmi Þorsteinssyni.