Næstkomandi fimmtudag, 15. september, munu Íslendingar afhenda Norðmönnum sérútgáfu Hins íslenzka fornritafélags á Morkinskinnu við hátíðlega athöfn í Oslóarháskóla. Um er að ræða 2. hluta af þremur í þjóðargjöf Íslendinga til Norðmanna í tilefni af 100 ára afmæli endurreists konungsveldis í Noregi árið 2005. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra mun afhenda gjöfina, en við henni tekur Anniken Huitfeldt, menningarmálaráðherra Noregs. Báðir ráðherrar munu flytja stutt ávörp, en að þeim loknum flytja þeir Jon Gunnar Jørgensen, prófessor við Oslóarháskóla og Þórður Ingi Guðjónsson ritstjóri Íslenzkra fornrita erindi.
Árið 2007 fengu Norðmenn afhenta Sverris sögu í Norræna húsinu á þjóðhátiðardegi sínum, 17. maí. Á næsta ári fer síðasta afhendingin fram þegar Norðmenn fá í hendur útgáfu á Hákonar sögu og Böglunga sögu.