Skip to main content

Fréttir

Icelandic Online – Faroese Online

Samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs í Færeyjum

Icelandic Online-verkefnið (icelandiconline.is) hefur nú fært út kvíarnar. Hafið er samstarf við Fróðskaparsetur í Færeyjum við þróun Faroese Online en námskeiðið er ætlað innflytjendum í Færeyjum. Fyrirmynd færeyska námskeiðsins er Icelandic Online – Bjargir sem var opnað árið 2010.

Bjargir eru eitt af sex námskeiðum undir hatti Icelandic Online-verkefnisins. Fyrsta Icelandic Online-námskeiðið var gefið út árið 2004 en það nýjasta, Icelandic Online 5, var opnað á síðasta ári. Námskeiðin eru gagnvirk og byggð á nýjustu rannsóknum í kennslufræði annarra/erlendra tungumála á netinu auk áralangrar reynslu af kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands.

Bjargir eru ætlaðar innflytjendum sem búa og starfa á Íslandi. Efni námskeiðsins er hagnýtt og tekur til daglegs lífs á Íslandi með þarfir innflytjenda í huga. Innihaldið er umfangsmikið og skiptist í sex samfellda kafla með um 260 fjölbreyttum æfingum. 

Tölvunarfræðinemar við Háskóla Íslands, Daníel Páll Jóhannsson og Össur Ingi Jónsson, ásamt Patrick Thomas tölvunarfræðingi vinna nú að þróun „apps“ til að unnt sé að bjóða Bjargir á nýjustu fartækjum, s.s. snjallsímum og spjaldtölvum. Færeyingar njóta góðs af þessari þróunarvinnu við gerð Faroese Online og nýta tæknihluta Bjarga, auk þess að þýða efnið og staðfæra fyrir sinn markhóp.

Samstarfsverkefnið er styrkt af Nordplus Voksen. Í starfshópnum eru fyrir hönd Háskóla Íslands: Birna Arnbjörnsdóttir prófessor, Kolbrún Friðriksdóttir aðjunkt, Patrick Thomas tölvunarfræðingur og Úlfar Bragason rannsóknarprófessor. Frá Fróðskaparsetri í Færeyjum: Hjalmar P. Petersen lektor, John Mikkelsen, tölvunarfræðingur og nemi, og Malan Marnersdóttir, prófessor og sviðsforseti. Frá Helsinkiháskóla: Helga Hilmisdóttir lektor.