Þriðjudaginn 10. desember kl. 16 verður nýju vefnámskeiði, Icelandic Online 5, hleypt af stokkunum. Um er að ræða námskeið fyrir lengra komna nemendur með höfuðáherslu á flóknari orðaforða og menningarlæsi. Opnunin verður í nýja salnum á Háskólatorgi og verður boðið upp á léttar veitingar.
Icelandic Online 5 er ný viðbót við Icelandic Online-námskeiðin en þau hafa verið starfrækt af Háskóla Íslands undanfarinn áratug. Mörg þúsund nemendur í íslensku sem öðru máli hafa nýtt sér þetta efni, bæði á eigin vegum og í tengslum við bóklegt nám í íslensku, bæði hér á landi og erlendis. Á þessu nýja námskeiði er lögð áhersla á að dýpka orðaforða nemenda í íslensku sem öðru máli og rækta menningarskilning þeirra. Námskeiðið skiptist í þrettán ólíka kafla sem hver um sig samanstendur af fyrirlestri, fjölbreyttum textum úr íslenskum fjölmiðlum og bókmenntum og miklum fjölda æfinga þar sem unnið er með viðkomandi orðaforða.
Icelandic Online 5 er samstarfsverkefni námsgreinarinnar Íslenska sem annað mál við Háskóla Íslands, Hugvísindastofnunar, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Björgvinjarháskóla og Helsinkiháskóla. Olga Holownia, Daisy L. Neijmann og Jón Karl Helgason eru ritstjórar efnisins auk þess sem Mark Berge hefur haft umsjón með tæknilegum þáttum þess.
Ríkisútvarpið, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og fjöldi höfunda hafa lagt þessu verkefni lið, en það hefur einnig notið fjárhagsstuðnings frá Nordplus sprog-áætluninni og Kennslumálasjóði Háskóla Íslands.