Skip to main content

Fréttir

Hver ákveður nafnið á nýju eldstöðinni neðan Fimmvörðuháls?

Mikill áhugi er hjá landsmönnum á nafngift nýrrar eldstöðvar neðan Fimmvörðuháls. Menntamálaráðherra hefur nú staðfest hver ákveður nafnið á hinu nýja kennileiti. Þrír opinberir aðilar hafa með örnefni að gera samkvæmt lögum: Landmælingar Íslands, nafnfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og örnefnanefnd. Starfshópur á vegum þeirra fer í sameiningu með ákvörðunarvald á nafngiftinni og hafa þeim borist fjölmargar tillögur. Næstu skref hópsins eru því að fara yfir tillögurnar auk þess að kynna sér þau örnefni sem þekkt eru á svæðinu, en nokkuð vandaverk kann að vera að velja nafn á eldstöð sem enn er í fullri virkni og óljóst er hvernig muni þróast.