Þórarinn Eldjárn skrifaði greinarkorn í dálkinn Tungutak í Morgunblaðinu. Hún birtist 22.10. 2016.
Hús íslenskunnar
Lengi hefur staðið til að Hús íslenskunnar rísi vestur á Skildinganesmelum í Reykjavík. Því var slegið föstu 2007 og efnt til samkeppni um teikningu og hönnun. Niðurstaða fékkst 2009 en eftir það lagðist málið í djúpan dvala, að sögn vegna hruns. Fyrsta skóflustunga var þó tekin í aðdraganda kosninga 2013 en reyndist því miður ekki vera að húsinu heldur að heljarmikilli gryfju sem síðan hefur okkur öllum til háðungar safnað vatni og illgresi en ekkert hefur bólað á neinu húsi.
Annað veifið hefur þó bólað á fögrum fyrirheitum: Fram kom sú ágæta hugmynd að setja kraft í framkvæmdir og drífa húsið upp fyrir 1. desember 2018 og helga það aldarafmæli fullveldisins. Þau góðu áform gufuðu síðan upp með einhverjum dularfullum hætti og voru loks endanlega slegin af nú á dögunum með einróma samþykkt Alþingis um að skipa frekar nefnd um að gera eitthvað annað í þessu hátíðarskyni. Ræða fram og aftur um hitt og þetta og meðal annast ráðast í hönnun á skrifstofuhúsnæði, skilst manni. Sorglegt var að fylgjast með því, þó auðvitað væri í sjálfu sér jákvætt að þingheimur skyldi loks geta sameinast um eitthvað.
Fögur fyrirheit hafa einnig birst í fjármálaáætlun stjórnvalda sem samþykkt var á síðasta þingi en þar er gert ráð fyrir því að ljúka byggingu hússins innan fimm ára. Guð láti gott á vita en gallinn er hinsvegar sá að enginn veit hvernig slíkum áformum muni reiða af í þeim hrærigraut sem allt stefnir í á næsta þingi.
Um þetta þyrftum við helst að fá eitthvað að vita nú á elleftu stund fyrir kosningar. Nefnilega þetta: Hversu ákafir eru hinir ýmsu flokkar í að reka af okkur slyðruorðið í umgengni okkar við tunguna og menningararfinn með því að ganga rakleitt og vafningalaust í þetta verk? Víst er að margir af þeim fjölmörgu kjósendum sem velkjast í vafa um hverjum þeir vilja nú ljá atkvæði sitt (ef þeim er það þá yfirleitt útbært) gætu látið afstöðu flokkanna til þessa brýna málefnis ráða mestu um val sitt.
Einhverntíma á næsta ári verður húsvígsla hjá nágrannanum, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Væntanlega verður mikið um dýrðir þegar sú merka menningarstofnun flytur inn. Eðli málsins samkvæmt má gera ráð fyrir að „úrvalslið merkustu manna“ hvaðanæva úr veröldinni kraftbirtist þar til að samfagna okkur. Væri nú ekki tilvalið að hlífa okkur öllum við þeirri skömm að láta gryfjuna gína galtóma við þeim (og okkur) á þeirri gleðistund? Væri ekki mannsbragur að því að Hús íslenskunnar væri þá komið á fleygiferð upp úr gryfjunni? Hve gott og fagurt væri ekki að mega þá líta volduga byggingarkrana sveiflast fram og aftur í óða önn milli Vigdísar og Þjóðarbókhlöðu, loksins, loksins sem tákn um eitthvað jákvætt og uppbyggilegt.