Í gær þegar styrkjum var veitt úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur tóku starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þau Ari Páll Kristinsson og Halldóra Jónsdóttir, á móti tveimur milljónum til vefgáttarinnar málið.is. Þau, ásamt Steinþóri Steingrímssyni, hafa um skeið unnið að undirbúningi verkefnisins, málið.is, sem verður vefgátt þar sem hægt verður að finna hagnýtar upplýsingar um íslenskt mál og málnotkun.
Styrkurinn verður notaður til vefhönnunar og vefforritunar. Vefgáttin málið.is nýtist þeim sem vilja treysta málnotkun sína í ræðu og riti og fræðast um íslenskt mál; ritun, beygingar, orðaforða, merkingu og uppruna orða, orðasambönd, orðalag og margt fleira. Aðgangur að málið.is verður notendum að kostnaðarlausu og stefnt er að því að opna vefgáttina á degi íslenskrar tungu í nóvember.