Þau miklu gleðitíðindi urðu við afgreiðslu fjárlagaársins 2013 að tryggð var fjárveiting til byggingar Húss íslenskra fræða. Það er því ljóst að framkvæmdir munu hefjast á þessu ári, og er gert ráð fyrir að byggingin rísi á þremur árum. Húsið mun verða sannkölluð aflstöð íslenskra fræða. Sameiningu fimm stofnana á sviði íslenskra fræða í eina árið 2006 lýkur þegar stofnunin sameinast undir einu þaki ásamt kennurum og nemendum í íslensku við Háskóla Íslands. Í nýju húsi munu skapast einstök tækifæri til að samtvinna miðlun hinna verðmætu gagna, rannsóknir og kennslu, og tengja almenningsfræðslu enn betur við öflugt rannsóknarstarf.
Húsið mun rísa á horni Suðurgötu og Arngrímsgötu. Hönnunin er vistvæn og framkvæmd samkvæmt Breeam, vottunarkerfi um vistvænar byggingar. Hornsteinar arkitektar ehf. hanna húsið en tillaga þeirra varð fyrir valinu í samkeppni um hönnun hússins sem haldin var á vormánuðum 2008. Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af mennta- og menningarmálaráðuneyti voru Sigríður Anna Þórðardóttir, sendiherra og formaður dómnefndar, Vésteinn Ólason forstöðumaður og Guðmundur R. Jónsson prófessor. Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands voru Hildigunnur Haraldsdóttir, arkitekt FAÍ, og Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt FAÍ. Ritari dómnefndar var Þráinn Sigurðsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, trúnaðar- og umsjónarmaður samkeppninnar var Gísli Þór Gíslason, verkefnastjóri hjá Ríkiskaupum, en verkefnastjórn og ráðgjöf fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins önnuðust Ingólfur Aðalsteinsson verkefnastjóri og Bergljót S. Einarsdóttir arkitekt. Nítján tillögur bárust í samkeppnina.
Tillögurnar voru mjög fjölbreyttar og augljóst að höfundar nálguðust viðfangsefnið af miklum metnaði og frumleika. Dómnefnd leitaði álits hjá Skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar um deiliskipulag og formaður dómnefndar átti fund með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, formanni skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, og Ólöfu Örvarsdóttur, skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar. Ráðgjafi frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum var Sigurgeir Steingrímsson rannsóknardósent og ráðgjafi frá íslenskuskor HÍ var Eiríkur Rögnvaldsson prófessor. Leitað var til VSÓ Ráðgjafar við stærðarreikninga og kostnaðarmat valdra tillagna. Í niðurstöðu dómnefndar um val á tillögu Hornsteina arkitekta ehf. sagði m.a. ,,Tillagan er sérstæð og frumleg með sínu sjálfstæða og skýra sporöskjuformi sem er hóflega brotið upp með útskotum og inndregnum svæðum."