Skip to main content

Fréttir

Hundrað og fimmtíu ár frá Öskjugosinu 1875

sex manns stilla sér upp fyrir mynd
SSJ

Föstudaginn 28. mars var haldið fjölsótt málþing um Öskjugosið 1875 á vegum Árnastofnunar í samstarfi við Félag íslenskra fræða. Askja er megineldstöð í sunnanverðu Ódáðahrauni en hafði öldum saman ekki látið á sér kræla. Öskjukerfið fór að vakna til lífsins árið 1874 þegar öflugir jarðskjálftar riðu yfir svæðið. Á páskadag 28. mars 1875 hófst svo eitt mesta öskugos Íslandssögunnar. Ösku rigndi yfir Jökuldal og fjöldi fólks neyddist til þess að yfirgefa heimili sín.

Elsa Guðný Björgvinsdóttir þjóðfræðingur kom í heimsókn í Eddu af þessu tilefni og hélt áhrifamikinn fyrirlestur um rannsóknir sínar á upplifun fólks af Öskjugosinu. Aðrir fyrirlesarar á málþinginu voru Atli Antonsson, bókmenntafræðingur og nýdoktor, og Katelin Marit Parsons, verkefnisstjóri á Árnastofnun og aðjunkt við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Daginn eftir var haldin fjölskyldusmiðja um eldgosið og ferðir Íslendinga til Nýja-Íslands en umsjón með henni höfðu Marta Guðrún Jóhannesdóttir safnkennara Árnastofnunar og Katelin Marit Parsons. Þar var meðal annars til sýnis vikur úr Öskjugosinu 1875 sem gestir fengu að skoða og handfjatla.