Skip to main content

Fréttir

Hljóðbönd Árnastofnunar í jólaþætti BBC

Andri Snær Magnason og Rósa Þorsteinsdóttir.

 

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fékk heimsókn frá Neil McCarthy, útvarpsmanni á BBC. Hann var í för með rithöfundinum Andra Snæ Magnasyni en þeir hafa það verkefni með höndum að gera þátt um íslensku jólin sem ber yfirskriftina BBC Radio 4 Christmas Special.

Eitt af umfjöllunarefnum þeirra var segulbandasafn það sem Árnastofnun varðveitir en þar er að finna ýmsan fróðleik um íslensk jól fyrr á tímum. McCarthy hafði sérstakan áhuga á að heyra dæmi um Grýlukvæði sem haldið hefur íslenskum börnum skelfdum um langt skeið.

Þættinum verður útvarpað á BBC World Service um jólin 2017 og því má búast við að ófáir jarðarbúar heyri af jólahaldi og jólasiðum á Íslandi.

 

Teikning Tryggva Magnússonar af Grýlu úr bókinni Jólin koma eftir Jóhannes frá Kötlum.