Miðvikudaginn 30. maí heldur Helga Hilmisdóttir fyrirlestur á vegum Íslenska málfræðifélagsins og Málvísindastofnunar Háskóla Íslands. Erindið nefnir hún Tengsl tíðarmerkingar og áherslu: Notkun orðræðuagnarinnar nú í íslensku talmáli. Það fer fram í stofu 423 í Árnagarði og hefst kl. 16.
Í fyrirlestrinum verða kynntar niðurstöður rannsóknar sem fyrirlesari gerði á notkun orðanna nú og núna í íslensku talmáli. Við rannsóknina var stuðst við kenningar og aðferðafræði samskiptamálfræðinnar. Öll umfjöllun byggist því á dæmum úr raunverulegum samtölum sem tekin hafa verið upp og skráð. Öllum tilvikum af nú og núna var skipt niður í fjóra meginflokka: nú og núna með tíðarmerkingu (e. temporal marker), nú sem blæbrigðaögn (e. tone particle), nú sem segðaögn (e. utterance particle) og nú sem viðbragðsögn (e. response particle). Að þessu sinni verður sjónum einkum beint að fyrstu tveimur flokkunum. Fjallað verður um í hverslags samhengi orðræðuögnin nú kemur fyrir og tengsl mismunandi flokka verða skoðuð með hliðsjón af kenningum um kerfisvæðingu (e. grammaticalization).
Helga Hilmisdóttir lauk magistersprófi í norrænum málum frá Háskólanum í Helsinki vorið 1999 og doktorsprófi frá sömu stofnun haustið 2007. Haustið 2008 hefur hún starfað sem lektor í norrænum fræðum við Háskólann í Helsinki. Hún er þátttakandi í alþjóðlegu verkefni sem hefur það að markmiði að kortleggja uppruna, þróun og notkun orðræðuagnarinnar nu/no/nu í evrópskum tungumálum.