Hélène Tétrel hefur starfað sem lektor í fornfrönsku og miðaldabókmenntum við háskólann Université de Bretagne Occidentale frá árinu 2001. Í haust hefur hún störf sem prófessor við háskólann í Rúðuborg. Þar mun hún hafa með höndum rannsóknir og kennslu í deild bretónskra og keltneskra fræða (Centre de recherche Bretonne et Celtique).
Hélène hefur í meira en áratug rannsakað Breta sögur en þær eru þýðing á latínuritinu Historia Regum Britanniae eftir Geoffrey frá Monmouth. Hélène lærði íslensku m.a. til að geta lesið sögurnar á íslensku. Um þessar mundir vinnur hún að útgáfu þeirra í samvinnu við Svanhildi Óskarsdóttur, rannsóknarprófessor við Árnastofnun. Útgáfan er hluti af bók Hélène um Bretasögur sem mun koma út hjá franska forlaginu Garnier en þær Svanhildur undirbúa jafnframt útgáfu sagnanna í ritröðinni Íslensk fornrit.
Helène segir að það sé mjög spennandi fyrir Frakka að kynna sér miðaldaþýðingar á íslensku og það komi skemmtilega á óvart hversu margar þær séu. Einnig sé athyglisvert hversu mikið virðist hafa verið þýtt beint úr frönsku á íslensku, til að mynda normönnsk verk.