Í tilefni af 150 ára afmæli Nýja-Íslands var starfsmanni Árnastofnunar boðið að taka þátt í hátíðlegri dagskrá sem skipulögð var af íslenskudeild Manitóbaháskóla 16. október síðastliðinn.
Dagskráin bar heitið „Sagnaskemmtun“ en boðið var upp á fjölbreytta fyrirlestra sem fjölluðu meðal annars um sögu landnáms Vestur-Íslendinga við Winnipegvatn (svæði sem árið 1875 fékk nafnið Nýja-Ísland) og skapandi list Vestur-Íslendinga á erlendri grundu.
Branislav Bédi, verkefnisstjóri á íslenskusviði og umsjónarmaður íslenskukennslu við háskóla erlendis, hélt fyrirlestur um rannsókn sína á kennslu í íslensku sem erlendu máli fyrir kanadíska námsmenn.
Sögu íslenskukennslu við Manitóbaháskóla má rekja aftur til ársins 1951. Í dag býður íslenskudeildin upp á BA-nám í íslensku sem erlendu máli og íslenskum bókmenntum bæði í stað- og fjarnámi. Námið er vinsælt meðal afkomenda Vesturfara sem og annarra nema í Norður-Ameríku.
