Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kom ásamt aðstoðarmanni sínum Hafþóri Eide og Ásdísi Jónsdóttur, sérfræðingi á skrifstofu mennta- og vísindamála, í heimsókn á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þriðjudaginn 13. mars 2018.
Guðrún Nordal forstöðumaður tók á móti Lilju í Árnagarði og sagði frá stofnuninni og margbrotinni starfsemi hennar. Lilja skoðaði þar lestrarsal, bókasafn og handritageymsluna. Þar sá hún meðal annarra dýrgripa Konungsbók eddukvæða og handrit að helgikvæðinu Lilju sem sagt er að allir vildu kveðið hafa.
Næsti viðkomustaður var Þingholtsstræti 29 þar sem alþjóðasvið Árnastofnunar er til húsa. Þar tók Úlfar Bragason og samstarfsfólk hans á móti ráðherra og kom tvennt til tals: hið aldargamla hús sem er í eigu ríkisins og vinsældir íslenskunnar meðal háskólanemenda um allan heim.
Síðasti viðkomustaður ráðherra og föruneytis hennar var Laugavegur 13. Starfsfólk á orðfræði-, málræktar- og nafnfræðisviðum tók þar á móti gestunum og sýndi þeim m.a. seðlasöfn Orðabókar Háskólans og örnefnasafn stofnunarinnar.