Nýr sendiherra Frakklands á Íslandi, Guillaume Bazard, og Renaud Durville, menningarfulltrúi franska sendiráðsins, heimsóttu Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á dögunum.
Forstöðumaður stofnunarinnar, Guðrún Nordal, tók á móti gestunum og fræddi þá um starfsemi stofnunarinnar og þau lykilverkefni sem hún sinnir. Heimsóknin var hin ánægjulegasta og hafði sendiherrann mikinn áhuga á íslensku máli og menningararfinum sem íslensku handiritin geyma. Í tilefni heimsóknarinnar voru tekin fram nokkur handrit, Jónsbók, þýðing á riddarasögum, Snorra-Edda og handritið GKS 1812 4to sem geymir heimskort.