Skip to main content

Fréttir

Háskóli Íslands og stofnunin efla samstarfið

 

Ljósmynd: Frá undirritun samninga. Eiríkur Rögnvaldsson, forseti Íslensku- og menningardeildar HÍ, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Þórður Kristinsson, kennslustjóri HÍ og Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs HÍ.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Háskóli Íslands hafa gert með sér samning þess efnis að Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunarinnar, muni jafnframt gegna að hluta starfi prófessors við Íslensku- og menningardeild HÍ.

Með þessu efla Háskólinn og stofnunin starfs- og rannsóknatengsl sín en Guðrún mun annast kennslu og leiðbeiningu við Íslensku- og menningardeild skv. samkomulagi við deildarforseta. Hugmyndin er að Guðrún taki að sér að leiðbeina nemendum í rannsóknarnámi við lokaverkefni og geti átt sæti í meistara- og doktorsnefndum við deildina.

Guðrún Nordal, er með doktorsgráðu frá Oxford-háskóla. Hún kenndi við Háskóla Íslands um árabil og hefur sérhæft sig í íslenskum og evrópskum miðaldabókmenntum og í íslenskum bókmenntum almennt. Helstu rannsóknarvið hennar núna lúta að útgáfu dróttkvæða, lærdómi, skáldskaparfræðum dróttkvæða og skáldskapariðkun á 12, 13. og 14. öld og tengslum vísna og lausamáls í íslenskum miðaldafrásögnum. Hún stundar ennfremur rannsóknir á breytileika íslenskra miðaldasagna í elstu handritum, frá 13., 14. og 15. öld.