Skip to main content

Fréttir

Háskóli Íslands og Árnastofnun vinna saman að eflingu íslenskra fræða

Forstöðumenn Árnastofnunar og Háskóla Íslands undirrita endurnýjaðan samstarfssamning.
Ólöf Garðarsdóttir, Guðrún Nordal og Silja Bára Ómarsdóttir.
Tryggvi Már Gunnarsson

Háskóli Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa endurnýjað samstarfssamning sinn sem miðar að því að efla bæði rannsóknir og menntun á sviði íslenskra fræða. Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar undirrituðu samninginn fyrr í vikunni og er hann til fimm ára.

Sem háskólastofnun sinnir Árnastofnun rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum greinum, oft í samstarfi við deildir innan Háskóla Íslands, eins og Íslensku- og menningardeild og Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild. Auk þess er það hlutverk stofnunarinnar að miðla þekkingu á íslenskum fræðum, m.a. með sýningum á íslensku miðaldahandritunum sem stofnunin varðveitir og rannsakar.

Háskóli Íslands og Árnastofnun hafa um langt árabil átt í afar nánu og farsælu samstarfi og markmiðið er að þétta það enn frekar nú þegar starfsemi Árnastofnunar og námsbrauta innan Íslensku- og menningardeildar HÍ er flutt í Eddu.

Með nýjum samningi er ætlunin að efla enn frekar og auka gæði rannsókna í íslenskum fræðum og tengdum fræðum um leið og áhersla verður á að kynna þau, bæði innan lands og utan. Þá munu stofnanirnar tvær styðja sameiginlega við menntun stúdenta á umræddum fræðasviðum sem tengjast m.a. íslenskri menningu, tungu, bókmenntum, sögu og þjóðfræði.

Samningurinn gerir ráð fyrir að aðilarnir tveir móti sameiginlegar áherslur um rannsóknasamstarf, en það hefur m.a. farið fram á vettvangi hins árlega Hugvísindaþings, Miðstöðvar stafrænna hugvísinda og Miðaldastofu. Enn fremur kveður samningurinn á um að Árnastofnun og HÍ veiti starfsfólki og stúdentum stofnananna gagnkvæman aðgang að rannsóknarefniviði og aðstöðu til rannsókna eftir því sem færi gefast. Þá geta rannsakendur við Árnastofnun, sem hlotið hafa hæfisdóm, sótt um stuðning til rannsókna sinna úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands líkt og kennarar og sérfræðingar skólans.

Aðilarnir tveir munu áfram standa saman að uppbyggingu rannsóknarnáms á sviði íslenskra fræða, en þeir hafa m.a. í sameiningu boðið upp á sumarnámskeið tengd íslenskum fræðum og alþjóðlegt meistaranám í miðaldafræðum sem notið hefur mikilla vinsælda. Einnig er kveðið á um í samningnum að einstakir starfsmenn Árnastofnunar geti annast kennslu við Háskóla Íslands á sérsviði sínu og þá geta fulltrúar Árnastofnunar komið með hugmyndir að málstofum eða öðru kennsluframlagi til helstu samstarfsgreina innan HÍ. Jafnframt geta rannsakendur innan Árnastofnunar tekið að sér að leiðbeina nemendum við lokaverkefni í HÍ.

Forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verður áfram prófessor án fastrar kennsluskyldu við námsbraut í íslensku við HÍ en jafnframt hefur hann setu- og atkvæðisrétt á deildarfundum Íslensku- og menningardeildar, sviðsþingum Hugvísindasviðs og á Háskólaþingi HÍ.

Sérstök samstarfsnefnd annast framkvæmd samningsins en í henni eiga sæti bæði forseti Hugvísindasviðs og forstöðumaður Árnastofnunar auk sex annarra fulltrúa frá stofnununum tveimur.