Skip to main content

Fréttir

Hanne-Vibeke Holst á höfundakvöldi

Hanne-Vibeke Holst.

 

Danski rithöfundurinn Hanne-Vibeke Holst kemur fram  á höfundakvöldi í Norræna húsinu að kvöldi 20. febrúar næstkomandi, kl. 20. Hún heimsækir lesendur sína á Íslandi í tilefni þess að nýjasta bók hennar, Iðrun, er nýkomin út hér á landi og hefur verið geysilega vel tekið. Það er þýðandi hennar, Halldóra Jónsdóttir, sem talar við Hanne-Vibeke og fer samtalið fram á dönsku (mjög skýrri dönsku!). Eftir spjall þeirra Halldóru gefst gestum sjálfum tækifæri til að spyrja höfundinn spjörunum úr og fá áritun á bækur sínar.

Hanne-Vibeke Holst (f. 1959) er menntaður blaðamaður en var nýorðin tvítug þegar fyrsta bók hennar kom út, unglingabókin Hejsa Majsa. Síðan hefur hún gefið út fjölda bóka fyrir unglinga og fullorðna, greinasöfn og viðtalsbækur, en langþekktust er hún fyrir skáldsögur sínar, þríleikinn um fréttamanninn Therese Skårup, Thereses tilstand (1992), Det virkelige liv (1994) og En lykkelig kvinde (1998), og pólitísku spennusögurnar Kronprinsessen (2002, á íslensku 2005), Kongemordet (2005) og Dronningeofret (2008). Hanne-Vibeke hefur fengið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir bækur sínar, einkum síðastnefnda þríleikinn.

Bækur hennar fást að sjálfsögðu að láni í bókasafni Norræna hússins ásamt DVD myndunum sem gerðar voru eftir Kronprinsessen, Kongemordet og Dronningeofret.

Danska sendiráðið býður gestum veitingar í lokin.

Það eru Forlagið og Norræna húsið sem bjóða Hanne-Vibeke Holst í heimsókn til Íslands til að kynnast lesendum sínum og til að þeir geti kynnst henni.

Allir eru velkomnir á viðburðinn og aðgangur er ókeypis