Skip to main content

Fréttir

Handritin til barnanna

​Handritin til barnanna er miðlunarverkefni sem þróað hefur verið á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Tilefnið er að 21. apríl 2021 verður liðin hálf öld frá því að fyrstu handritin komu heim frá Danmörku eftir áratugalangar samningaviðræður þjóðanna.
Verkefnið er miðað við miðstig grunnskóla og markmið þess er að hvetja börn til sköpunar og koma hugmyndum sínum á framfæri við umheiminn.

Tímarammi verkefnisins er frá hausti 2020 til vors 2021 og á þeim tíma fá grunnskólar um allt land kynningarbréf um verkefnið. Að auki fá skólarnir sent dagatal með handritamyndum sem hugsað er til að kveikja áhuga ungmenna á þessum spennandi menningararfi. Tveir ungir fræðarar, Snorri Másson og Jakob Birgisson munu heimsækja rúmlega fimmtíu skóla um allt land og fylgja verkefninu eftir. 

Starfsfólk HTB
Fræðarar ásamt Guðrúnu Nordal forstöðumanni og Evu Maríu Jónsdóttur verkefnastjóra
Mynd: Sigurður Stefán Jónsson

Nemendur verða hvattir til að búa til sín eigin handrit í vetur og þann 21. apríl 2021 verða veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi handrit um leið og því er fagnað að 50 ár eru liðin frá því að Vædderen sigldi inn í Reykjavíkurhöfn með handritin. Um svipað leyti kemur út ný barnabók um örlagasögu eins merkasta handrits okkar, Möðruvallabókar. Höfundur hennar er Arndís Þórarinsdóttir.

Allar upplýsingar og efni tengt verkefninu má finna hér.

Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði, Þróunarsjóði námsgagna, Landsvirkjun, Nýsköpunarsjóði námsmanna og er unnið í samstarfi við fjölmarga aðila, t.d. Barnamenningarhátíð í Reykjavík, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Reykjavík-Bókmenntaborg, RÚV ohf., Sögur – verðlaunahátíð barnanna, Arndísi Þórarinsdóttur rithöfund, List fyrir alla, Menningarmiðstöðina Edinborg á Ísafirði, Sláturhúsið á Egilsstöðum, Listasafn Árnesinga í Hveragerði, Menningarhúsið Berg á Dalvík og fleiri.