Skip to main content

Fréttir

Handritin alla leið heim

​ Fóstrurnar samankomnar á Árnastofnun. Charlotte Bøving, Bragi Valdimar Skúlason, Kjartan Sveinsson, frú Vigdís Finnbogadóttir, Hugleikur Dagsson og Steinunn Sigurðardóttir. Á myndina vantar Ragnar Stefánsson. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir. ​

Í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar stendur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að sex litlum sýningum víðs vegar um land á sumri komanda. Þær verða opnaðar á næstu vikum, sú fyrsta að Tjarnarlundi í Saurbæ á sunnudaginn, 28. apríl.

Á hverri sýningu verður eitt handrit tengt viðkomandi héraði í brennidepli. Hverju handriti hefur verið fengin fóstra sem opnar sýninguna. Fóstrurnar eru frú Vigdís Finnbogadóttir, Bragi Valdimar Skúlason textasmiður, Charlotte Böving leikari, Kjartan Sveinsson tónlistarmaður, Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur, Hugleikur Dagsson myndasöguhöfundi og Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður.

Fóstrurnar komu saman á Árnastofnun síðasta vetrardag. Í málstofu voru handritin sex til sýnis en hver fóstra heimsækir einnig Árnastofnun sérstaklega og þá kynnir handritafræðingur henni handritið, útlit þess, sögu og efnið sem það hefur að geyma. Forvörður Árnastofnunar býr til eftirlíkingu af handritinu til sýningar og fóstran fer ásamt handritafræðingi á staðinn og afhendir eftirlíkinguna. Þar verður haldin athöfn þar sem handritinu er komið fyrir á sýningarstað að viðstöddum gestum og boðið upp á dagskrá með kynningu á handritinu og sögu þess. Upplýsingar um handritið og Árna Magnússon verður að finna á sýningarstað og í bæklingi. Vonir standa til að þetta hvetji ekki síst Íslendinga sem ferðast um eigið land til þess að koma við á þessum útvöldu stöðum og fræðast þar – og í framhaldi af heimsókninni – um hið merkilega söfnunarstarf Árna og þýðingu þess fyrir sögu okkar og bókmenntir.


Sýningunum er ætlað að vekja athygli á þeim mikilvæga og fjölbreytta menningararfi sem handritin geyma. Um leið eiga þær að minna á þá staðreynd að Árni Magnússon fékk handrit hvaðanæva að af landinu; handrit voru skrifuð og lesin um allt land og segja má að hvert hérað geti státað af dýrgrip í Árnasafni.

Hönnuðir sýninganna eru Finnur Arnar Arnarson myndlistarmaður og Sigrún Sigvaldadóttir grafískur hönnuður. Um endurgerð handrita sér Hersteinn Brynjólfsson forvörður. Sýningarnar eru haldnar í samvinnu við heimamenn og söfn á hverjum stað og styrkt af menningarráðum landshlutanna.

 

Bragi Valdimar Skúlason, Margrét Eggertsdóttir, Svanhildur Óskarsdóttir, Hugleikur Dagsson, Gísli Sigurðsson og Charlotte Bøving. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Guðvarður Már Gunnlaugsson, Svanhildur Óskarsdóttir og Hugleikur Dagsson. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Svanhildur Óskarsdóttir og Vigdís Finnbogadóttir. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Bragi Valdimar Skúlason við einn sýningarstandinn. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Steinunn Sigurðardóttir og Hugleikur Dagsson. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.