Skip to main content

Fréttir

Handritasafn Árna Magnússonar á lista um minni heimsins?


Gengið hefur verið frá sameiginlegri umsókn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Den Arnamagnæanske samling til Unesco um að Handritasafn Árna Magnússonar verði skráð á svonefnt Memory of the World Register.

Sótt er um skráningu á listann fyrst og fremst á grundvelli þess að í handritasafninu eru varðveittar ómetanlegar heimildir um sögu og menningu norrænna þjóða og þar með Evrópu frá miðöldum fram á árnýöld en einnig með hliðsjón af þeim merku samskiptum þjóða í millum sem leiddu til skiptingu safnsins milli Danmerkur og Íslands á sjöunda áratug síðustu aldar. Umsóknin var send til Unesco í París 31. mars. Umfjöllun umsókna tekur eitthvað á annað ár og niðurstöðu því ekki að vænta fyrr en á næsta ári.

Memory of the World Register er ætlað að vekja athygli á merkum heimildum fyrir sögu mannkynsins sem varðveittar eru og skjalfestar með ýmsum hætti. Hér getur verið um að ræða einstaka gripi eða heilu söfnin. Á heimasíðu Unesco er markmiði átaksins lýst.

Opið hefur verið fyrir umsóknir um skráningu á þennan lista á tveggja ára fresti frá árinu 1997 og lauk sjötta umsóknarfresti 31. mars s.l. Alls hafa 158 menningarheimildir verið skráðar á listann frá árinu 1997, nú síðast bættust 38 á listann á árinu 2007 eftir næstsíðustu umsóknahrinu. Þessar umsóknir allar er hægt að skoða með því að smella á ártölin á heimasíðu Unesco.

Eins og vænta má hafa vestrænar stofnanir verið duglegastar að sækja um skráningu merkra heimilda í sínum fórum og vega því þyngst á listanum enn sem komið er.

Víða um heim eru menningarminjar í mikilli hættu vegna ytri aðstæðna; fátæktar, óhagstæðs loftslags, lélegs húsakosts, hernaðarbrölts eða skeytingarleysis þeirra sem ríkjum og fjárhag þeirra ráða. Memory of the World Register er líka ætlað að vekja athygli heimsins á þeim hættum sem ómetanlegum minjum er víða búin.