Skip to main content

Fréttir

Hagnýtingarverðlaun HÍ - handrit.is

Kristín Ingólfsdóttir rektor afhendir Guðrúnu Nordal forstöðumanni og Ingibjörgu S. Sverrisdóttur landsbókaverði Hagnýtingarverðlaun HÍ.

Handrit.is - Rannsóknargagnagrunnur og samskrá um íslensk og norræn handrit hlaut Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2010.

Að verkefninu koma Sigurgeir Steingrímsson, rannsóknardósent og stofustjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Örn Hrafnkelsson, forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns og Matthew Driscoll forstöðumaður Árnastofnunar í Kaupmannahöfn (Den Arnamagnæanske Samling).

Verkefnið er á sviði norrænna fræða og er nútíma gagnagrunnur um íslensk og norræn handrit. Beitt er nútímatækni á þann veg að hægt er að tengja saman ólíkar upplýsingar á nýstárlegan hátt. Hægt er að taka hvert handrit og tengja það við upplýsingar af ólíkum toga m.a. staðsetningar og aðrar landfræðilegar og fornleifafræðilegar upplýsingar. Auk þess getur hver og einn notað gagnagrunninn til þess að leika sér með handritin, bæta við eigin texta, athugasemdum, nýta myndskreytingar og raða ólíkum atriðum saman að vild.

Gagnagrunnurinn verður hvort tveggja tæki til fræðilegra athugana og persónulegt verkfæri til eigin sköpunar. Með lausninni eru handritin gerð aðgengileg öllum.

Önnur verðlaun hlaut verkefnið ,,Ný tækni til flúrljómunarrannsókna á lifandi frumum". Björn Agnarsson doktorsnemi við Háskóla Íslands er höfundur tillögunnar ásamt Kristjáni Leóssyni eðlisfræðingi á Raunvísindastofnun.

Þriðju verðlaun hlaut ,,frasar.net. Danskt – íslenskt máltæki." sem er hugmynd Auðar Hauksdóttur dósents í dönsku við Háskóla Íslands.