Skip to main content

Fréttir

Hagkvæm máltækni utan ensku – íslenska tilraunin

Á slóðinni http://iceblark.wordpress.com hefur verið opnuð heimasíða verkefnisins "Hagkvæm máltækni utan ensku – íslenska tilraunin" (Viable Language Technology Beyond English - Icelandic as a Test Case) sem hlaut þriggja ára öndvegisstyrk frá Rannsóknasjóði í janúar sl. Það er samstarfsverkefni fræðimanna við orðfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnisstjóri er Eiríkur Rögnvaldsson prófessor. Þetta er þverfaglegt rannsóknarverkefni sem hefur að meginmarkmiði að þróa vísindalegar máltækniaðferðir sem henta auðlindalitlum tungumálum, einkum beygingamálum - þ.e. tungumálum þar sem málleg gagnasöfn og málvinnslutól eru af skornum skammti. Að þessu verður unnið með því að endurbæta rannsóknaraðferðir og laga þær að íslensku; nýta sérkenni íslenskunnar til að þróa nýjar hagkvæmar aðferðir sem gera kleift að byggja upp tól og gögn á einfaldari hátt en áður; og nýta þverfaglega þekkingu rannsóknarhópsins, reynslu hans úr fyrri verkefnum og samstarf við framúrskarandi erlenda vísindamenn til að tengja á frjóan hátt aðferðir ólíkra fræðigreina.

Innan verkefnisins verður unnið að þróun rannsóknaraðferða og gagna í þremur verkþáttum sem tengjast á margvíslegan hátt; a) merkingarnám og merkingarnet, b) vélrænar grófþýðingar, og c) þáttunaraðferðir og uppbygging trjábanka. Lögð verður áhersla á að stefna saman málvísindalegum og tölfræðilegum aðferðum og láta þær vinna sem heild til að skapa nýja þekkingu og opna nýja möguleika.