Skip to main content

Fréttir

Guðrún Kvaran: Áhrif Biblíunnar á íslenskar nafngjafir 28. apríl

Laugardaginn 28. apríl nk. verður Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í gamlatestamentisfræðum við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, sextugur. Af því tilefni verður haldið málþing honum til heiðurs í hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 13.30 á afmælisdaginn. Flutt verða þrjú stutt erindi.

Guðrún Kvaran: Áhrif Biblíunnar á íslenskar nafngjafir.

Guðrún Kvaran er prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og stofustjóri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og er kunn fyrir rannsóknir sínar á sviði sögulegra málvísinda, sögu orðaforðans, tökuorðarannsókna og nafnfræði.

Terje Stordalen: What is a Canon of Scriptures?

Terje Stordalen er prófessor í gamlatestamentisfræðum við Oslóarháskóla. Hann hefur áður verið prófessor við Menighetsfakultetet í Osló og lútherska guðfræðiskólann í Hong Kong, ásamt því að vera framkvæmdastjóri OTSEM, sem er samstarfsvettvangur 13 háskólastofnana í Norður-Evrópu á sviði gamlatestamentisfræða, á árunum 2004-2011.

Susan Gillingham: Seeing and Hearing Psalm 137.

Susan Gillingham hefur um árabil kennt guðfræði við Oxfordháskóla. Hún er heimsþekkt fyrir rannsóknir sínar á áhrifasögu Davíðssálma og er höfundur ritskýringarrits þess efnis, The Psalms through the Centuries (2007), sem telst til höfuðrita á sviði áhrifasögu Gamla testamentisins. Mun hún fjalla í máli og myndum um áhrifasögu sálms 137.

Við þetta tækifæri verður Gunnlaugi afhent afmælisrit sem ber titilinn Mótun menningar/Shaping Culture og vísar til áhuga afmælisbarnsins á áhrifum Biblíunnar á samfélag og menningu. Greinar í ritið skrifa um 20 fræðimenn sem Gunnlaugur hefur kynnst á ferli sínum, bæði hér heima og erlendis.

Málþingsstjóri er Ólafur Egilsson, fyrrv. sendiherra.

Allir eru velkomnir