Skip to main content

Fréttir

Guðrún Ása Grímsdóttir sæmd fálkaorðu

Guðrún Ása Grímsdóttir.

Guðrún Ása Grímsdóttir rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum var meðal þeirra sem forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu 1. janúar síðastliðinn. Riddarakrossinn féll henni í skaut fyrir störf sín á vettvangi íslenskra fræða og menningar.

Guðrún Ása brautskráðist stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1970. Hún lagði stund á íslensku, sagnfræði og almenna bókmenntasögu við Háskóla Íslands og lauk B.A. prófi í þessum greinum 1974. Þá stundaði Guðrún Ása framhaldsnám í sagnfræði við Uppsalaháskóla og Háskóla Íslands og lauk cand. mag. prófi í miðaldasagnfræði frá Háskóla Íslands vorið 1979.

Frá árinu 1992 hefur Guðrún Ása gegnt fullri rannsóknarstöðu á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og eftir hana liggur hafsjór af rannsóknum og greinum. Nánari upplýsingar um störf Guðrúnar Ásu má nálgast hér á heimasíðu stofnunarinnar, þar með talda ítarlega ritaskrá. Samstarfsfólk Guðrúnar Ásu á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum óskar henni innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu fyrir störf sín.

Handhafar fálkaorðu 2016.