Skip to main content

Fréttir

Guðrún Ása Grímsdóttir er tilnefnd til menningarverðlauna DV


Menningarverðlaun DV verða afhent í þrítugasta sinn í Iðnó í kvöld, miðvikudaginn 4.mars. Verðlaunin, sem eru veitt í átta flokkum - bókmenntum, byggingarlist, fræðum, hönnun, kvikmyndalist, leiklist, myndlist og tónlist -, eru fyrir framúrskarandi árangur á listasviðinu á síðastliðnu ári.

Tilnefningarnar í ár eru fjörutíu talsins og eru kynntar á heimasíðu DV með rökstuðningi dómnefnda. Einnig verða veitt sérstök netverðlaun sem kosið er um á dv.is. Í netkosningnunni gefst lesendum kostur á að velja einn listamann eða verk úr öllum tilnefningunum. Sá listamaður eða það verk sem fær flest atkvæði í netkosningunni hlýtur netverðlaunin.

Guðrún Ása Grímsdóttir, sérfræðingur á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er tilnefnd í flokknum: Fræði fyrir ritstjórn og útgáfu bókarinnar Ættartölusafnrit séra Þórðar í Hítardal I-II, útgefandi Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2008.

Rökstuðningur dómnefnda:
Þórður var uppi á 17. öld og rit hans var á sinn hátt brautryðjandaverk í ættfræði Íslendinga. Guðrún Ása hefur unnið þrekvirki með því að búa verkið til prentunar og skrifar sjálf margt í kringum það. Þetta er margra ára eljuverk unnið fjarri öllu dægurþrasi og varpar skýru ljósi á mikilvægan þátt í menningarsögu þjóðarinnar

Aðrir sem eru tilnefndir í sama flokki:
Guðmundur Eggertsson fyrir bókina Leitin að uppruna lífs: líf á jörð, líf í alheimi, Halldór Björnsson fyrir bókina Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar, Kristmundur Bjarnason, fyrir bókina Amtmaðurinn á einbúasetrinu og Þorvaldur Gylfason fyrir skrif um hagfræði og efnahagsmál í blöðum, tímaritum og bókum á síðustu áratugum.