Skip to main content

Fréttir

Gripla XXXIII er komin út

Gripla, alþjóðlegt ritrýnt ISI-tímarit Árnastofnunar um handrita-, bókmennta- og þjóðfræði, er komin út með tólf fræðiritgerðum (fjórum á íslensku og átta á ensku með ágripum á báðum málum) og útgáfum stuttra texta þar sem ýmist er horft til miðalda og jafnvel fornaldar eða handrita og texta frá því eftir siðbreytingu og allt fram á nítjándu öld.

          Haukur Þorgeirsson rekur aðferðafræðileg vandamál við útgáfu forntexta sem varðveittir eru í mörgum og breytilegum handritum með dæmi af Laxdæla sögu. Með sjálfvirkum samanburði á samsvarandi textabútum í mörgum handritum er kannað hvaða handrit líkist mest elsta broti sögunnar. Árni Einarsson rýnir í Heimskringlu með nýstárlegum hætti og sýnir fram á hvernig kristilegu táknmáli er beitt markvisst í frásögn Snorra af heimkomu Ólafs Haraldssonar til móður sinnar og stjúpa. William Sayers sýnir hvernig leikið er með ólíka merkingu orðsins mál í Kormáks sögu og tengir það við helstu umfjöllunarefni sögunnar. Adèle Kreager fjallar um náttúrusteina og lyfsteina og hvernig þeir voru notaðir í andlegu og líkamlegu heilsubótarskyni á miðöldum. Katelin Marit Parsons skrifar um Margrétar sögu og notkun handrita hennar við fæðingarhjálp – með dæmi af eigendasögu eins handrits sögunnar frá fjórtándu öld og fram á þá átjándu. Jon Wright rekur spássíugreinar í lögbókum afrituðum af Gissuri biskupi Einarssyni og gefur textana út í heild sinni í fyrsta skipti. Ryder Patzuk-Russell greinir orðið aspiciensbækur í fornum máldögum og kemst að því að þar sé átt við sérstaka tegund tíðasöngbóka en ekki breviarium eins og talið hefur verið hingað til. Gottskálk Jensson gefur út heimildir um klausturkirkjuna og bókasafnið á Þingeyrum og túlkar þær með hliðsjón af nýlegum fornleifarannsóknum til að draga upp mynd af byggingum og innviðum miðaldaklaustursins.

          Tiffany Nicole White vekur máls á Sethskvæðinu og gefur í fyrsta sinn út tvær ólíkar gerðir þess um leið og hún rekur söguna af Seth aftur til hebreskra texta. Philip Lavender tekur til athugunar hinar vanræktu og grótesku Grobbians rímur sem voru ortar á sautjándu öld út frá þýskri sögu um Grobianus og Grobiana (sem verða Grobbian og Gribba á íslensku). Philip færir rök fyrir því að Jón Magnússon í Laufási og Guðmundur Erlendsson geti báðir talist höfundar hvor sinnar gerðar rímnanna. Dario Bullitta og Kirsten Wolf gefa út Nokkrar eftirtakanligar smáhistoríur samantíndar til fróðleiks 1783, þýðingu á vinsælu smátextasafni með sýnishornum allt frá fornöld, og rekja sig aftur að þeim texta sem Ólafur bóndi Jónsson í Arney gæti hafa þýtt úr á átjándu öld.

          Loks birtir Reynir Þór Eggertsson rannsókn sína á því hvernig Jón Árnason þjóðsagnasafnari endurskrifaði söguna af Gríshildi góðu í þjóðsagnasafni sínu eftir handriti sem hann fékk frá Ragnhildi Guðmundsdóttur, m.a. til að gera söguna líkari þeirri gerð sem þekktust er úr Decamerone en um leið eyði Jón því kvenlega sjónarhorni sem finna megi í gerð Ragnhildar.

Gripla kemur út á prenti einu sinni á ári en er jafnframt í opnu aðgengi á gripla.arnastofnun.is. Efni Griplu hefur verið skráð í gagnagrunna Thomas Reuters (Clarivate–Web of Science) frá 2010 og Elsevier (Scopus) frá 2011, og nýlega var gengið frá samningi við EBSCO-efnisveituna um miðlun Griplu. Ritstjórar eru Gísli Sigurðsson (gisli.sigurdsson@arnastofnun.is) og Annette Lassen (annette.lassen@arnastofnun.is).