Gripla, ritrýnt alþjóðlegt ISI-tímarit Árnastofnunar um handrita-, bókmennta- og þjóðfræði, er komin út. Ein grein sætir sérstökum tíðindum en þar segir frá íslenskum tvíblöðungi á skinni sem Bjarni Gunnar Ásgeirsson (bga@hi.is), doktorsnemi við Háskóla Íslands, fann nýlega í British Library innan um handrit úr bókasafni hertogans af Buckingham og Chandos í Stowe House á fyrri hluta 19. aldar. Það safn keypti jarlinn af Ashburnham árið 1849 og British Library eignaðist það síðan árið 1883. Þrjú íslensk handrit leyndust þar á meðal, tvíblöðungurinn og tvö ung pappírshandrit, en hafa ekki komist á skrár um íslensk handrit á Bretlandseyjum fyrr en nú. Bjarni sýnir fram á að tvíblöðungurinn sé kominn úr Reynistaðarbók í Árnasafni, safnriti sem nunnurnar í klaustrinu á Reynistað tóku saman á 14. öld með ýmiss konar fróðleik um sögu heimsins, dýrlinga, kraftaverk og dæmisögur hvers konar sem hafa komið nunnunum vel – en Svanhildur Óskarsdóttir (svanhildur.oskarsdottir@arnastofnun.is) hefur rannsakað handritið sérstaklega og skrifað mikið um það. Í grein sinni um handritsfundinn segir Bjarni Gunnar frá því að Grímur Jónsson Thorkelin, sem er frægastur fyrir að hafa verið fyrstur til að gefa Bjólfskviðu út árið 1815 og þýða hana á latínu, hafi líklegast tekið umrætt handritsbrot með sér úr Reynistaðarbók í Árnasafni þegar hann fór í rannsóknarferð til Englands árið 1786. Á þeim tíma var handritið óbundið í Kaupmannahöfn – eins og fram kemur í lýsingu Árna sjálfs á því. Á tvíblöðungnum í British Library eru sögur af erkibiskupum í Kantaraborg og heilögum Kúðbert „í þeim stað er Lindefarnensis heitir“ eins og segir í útgáfu Bjarna Gunnars á textanum. Grímur gaf handritasafnaranum Thomas Astle tvíblöðunginn árið 1787, ásamt tveimur uppskriftum sem hann hafði gert sjálfur, og Bjarni Gunnar getur sér til að með því hafi hann viljað liðka fyrir erindisrekstri sínum og rannsóknum á Englandi.
Ben Allport við Háskólann í Björgvin tekur til rannsóknar hvaða sögu Eadmundar Englakonungs Ari fróði gæti verið að vísa í þegar hann segir frá píslardauða hans í Íslendingabók. Daniel Sloughter, stærðfræðiprófessor við Furmanháskóla í Bandaríkjunum, fjallar um og gefur út stafrétta gerð norrænnar þýðingar í handritinu GKS 1812 4to á kvæði um reikningslist frá fyrri hluta 13. aldar, Carmen de Algorismo eftir Alexander de Villadei, ásamt fyrstu ensku þýðingu textans. Áður hefur þessi íslenska þýðing eingöngu komið út eftir þeirri gerð sem varðveitt er í Hauksbók Erlendssonar lögmanns. Pernille Ellyton við Orðabókina í Kaupmannahöfn skrifar um fornaldarsögur af Hrafnistumönnum, þeim Katli hæng, Grími loðinkinna, Örvar-Oddi og Áni bogsveigi. Hún dregur fram hvað sögurnar séu ólíkar hver annarri að stíl og efnistökum, og bendir á að tilhneigingu fræðimanna til að spyrða þær saman megi rekja til handrits frá 15. öld þar sem þær eru allar varðveittar. Upphaflega hafi þær þó ekki verið hugsaðar sem neins konar heild en ættartengsl helstu karlpersóna hafi dregið þær hverja að annarri þegar fram liðu stundir.
Gottskálk Jensson við Árnasafn í Hafnarháskóla rekur uppruna tveggja dæmisagna Esóps í formála frumsamdrar riddarasögu um Adonias til latnesks kvæðasafns sem brot eru varðveitt úr í tveimur tvíblöðungum á Þjóðminjasafni. Brotin telur Gottskálk komin frá Benediktínum á Norðurlandi og færir rök fyrir því að hlutverk dæmisagnanna í formálanum sé að fá lesendur sögunnar til að hugleiða siðferðislegan boðskap hennar – fremur en að líta á hana eingöngu sem skemmtun. Anders Winroth við Oslóarháskóla skrifar um eitt handrit Jónsbókar, Belgsdalsbók, og telur líklegt að þar sé komin lögbókin sem lýst er sem „vondri“ í eignaskrá Hóladómkirkju árið 1525. Fyrsti þekkti eigandi bókarinnar var Steinunn dóttir Jóns biskups Arasonar og ýmislegt annað bendir til þess að handritið tengist kirkjunni sérstaklega. Grein Anders kallast á við það sem Stefan Drechsler við Háskólann í Björgvin skrifar almennt um lögbækur frá 15. öld og tengsl þeirra við lögbókagerð fyrir svartadauða (1402–1404) – sem sýni að þrátt fyrir breytingar í norrænum stjórnmálum, s.s. með stofnun Kalmarsambandsins 1397, hafi íslensk lögbókarhandrit á 15. öld fyrst og fremst verið skrifuð fyrir innanlandsmarkað og stuðst við innlendar fyrirmyndir.
Þórunn Sigurðardóttir á Árnastofnun rýnir í og gefur út í fyrsta sinn Frumtignarvísur og tvö fylgikvæði eftir handriti frá árinu 1693. Hún færir rök fyrir því að vísurnar og kvæðin séu úr áður óþekktu ljóðabréfi séra Einars Sigurðssonar í Eydölum (um 1538–1626), sem hann hafi ort handa syni sínum séra Gísla Einarssyni presti í Vatnsfirði. Þórunn getur sér til um tilefni bréfsins, setur það í samhengi við deilur Gísla fyrir vestan og sýnir fram á að handritið tengist afkomendum eftirmanns Gísla í Vatnsfirði.
Katelin Marit Parsons, nýdoktor við Árnastofnun, skrifar um sögu í Skarðsárannál, sem hefur hingað til verið álitin sannsöguleg, af því að árið 1553 hafi orðið mikill fjölskylduharmleikur á bæ fyrir austan, bróðir hafi skorið undan bróður sínum svo hann lést af sárum sínum en móðir þeirra hafi þá slegið eftirlifandi bróðurinn til bana og síðan hlotið sömu örlög fyrir hendi eiginmanns síns, Bjarna. Katelin bendir á að hér sé komin alþjóðleg flökkusögn sem sé ætlað að flytja viðvörunarboðskap með því að tengja hana við sögulega viðburði. Annálinn þurfi því að lesa og túlka sem merkingarbæra frásögn fremur en að einblína á hann sem sagnfræðilega heimild.
Katarzyna Anna Kapitan, nýdoktor við Árnasafn í Hafnarháskóla, rannsakar varðveislu og textatengsl rímna og lausamálsfrásagna af Hrómundi Gr(e)ipssyni, og kemst að þeirri niðurstöðu að höfundur yngstu lausamálssögunnar frá 19. öld hafi bæði stuðst við 15. aldar rímurnar Griplur og eldri sögu af Hrómundi – nema að hann eða hún hafi stuðst við glataðar rímur Benedikts Jónssonar Gröndal (1762–1825) sem hafi þá sameinað þessar tvær. Þá rekur Katarzyna að villu í yngri rímunum af Hrómundi megi rekja til prentaðrar fornaldarsagnaútgáfu C.C. Rask (frá 1829–1830) á þeirri gerð sögunnar sem varðveitt er í handriti frá 17. öld.
Loks skrifar Árni Heimir Ingólfsson um enn einn „útlenskan tón“ í söngbókinni Melódíu frá 17. öld. Árni hefur áður glímt við það í Griplu (2012) að rekja uppruna laganna í þessu handriti. Að þessu sinni finnur hann fyrirmynd að lagi við textann „Englar og menn og allar skepnur líka senn“ í flæmsku lagi sem hafi líklega borist hingað eftir þýskri prentun sem kom út í Nürnberg árið 1568.
Gripla kemur út einu sinni á ári og er í opnum aðgangi á gripla.arnastofnun.is
Ritstjórar eru Gísli Sigurðsson (gislisi@hi.is) og Annette Lassen (annette@hi.is)