Skip to main content

Fréttir

Gripla XXVIII er komin út

Gripla 28 (2017), alþjóðlegt, ritrýnt tímarit á sviði norrænna fræða fyrri alda. Ritstj. Emily Lethbridge og Rósa Þorsteinsdóttir. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Rit 97. 261 bls. ISBN: 978 9979 654 44 5. Útg. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Gripla 2017 inniheldur átta fræðigreinar (fjórar á íslensku og fjórar á ensku) og eina textaútgáfu. Viðfangsefni greinanna er fjölbreytt og tilheyrir mörgum sviðum: þjóðfræði, bókmenntafræði, handritafræði, svo og sögu íslensks máls. Ritrýndar greinar eru eftir Romina Werth og Aðalheiði Guðmundsdóttur, sem fjalla um framlag kvenna til söfnunar þjóðsagna á Austurlandi; Joanne Shortt Butler, sem skrifar um sagnapersónuna Þorstein Kuggason og ímyndunarafl höfunda Íslendingasagna; Þórdísi Eddu Jóhannesdóttur, sem skoðar gerðir Jómsvíkinga sögu í miðaldahandritum; Rebecca Merkelbach, sem notar hugtök um skrímsli til að túlka Grettis sögu Ásmundarsonar og einkenni Grettis og annarra útlaga í Íslendingasögum; Aðalstein Hákonarson, sem fjallar um ritun og framburð orða eins og, mér og sér í ljósi athugasemda Brynjólfs Sveinssonar frá árinu 1651; Stefan Drechsler, sem skoðar myndskreytingar handrita á vestanverðu Íslandi á 13. öld og í upphafi 14. aldar; og Natalie M. Van Deusen, sem gefur út texta kvæðisins „Sprundahrós“, varðveittan í pappírshandritunum ÍB 850 8vo, JS 255 4to og JS 589 4to, ásamt inngangi. Í heftinu er að auki grein um samtöl í Íslendingasögum eftir Theodore M. Andersson. Þar má einnig finna grein eftir Má Jónsson um þeta-brotið (AM 162 B fol. θ) og glataða Gullskinnu-handritið af Njáls sögu.    

Tekið er við greinum í næsta hefti Griplu fram til 1. apríl 2018. Vakin er athygli á því að Gripla hefur verið skráð í Arts and Humanities Citation Index-gagnagrunninn sem tekinn er saman hjá Thomson Reuters og er metin til hæstu stiga (15) innan matskerfis Háskóla Íslands. Gripla birtir greinar jafnt á íslensku, Norðurlandamálum, ensku, frönsku og þýsku. Um leiðbeiningar við frágang greina til birtingar í Griplu sjá nánar hér

 

Hér má kaupa Griplu XXVIII.