Þau ánægjulegu tíðindi bárust með morgunpóstinum að ákveðið hefur verið að taka Griplu til skráningar í virtasta gagnagrunn fræðitímarita í heiminum, Arts and Humanities Citation Index á vegum Thomson Reuters, frá og með 21. hefti árið 2010. Matsferlið hófst í ársbyrjun 2011 og hefur því tekið liðlega þrjú og hálft ár en Gripla er fyrsta íslenska tímaritið á sviði hugvísinda sem fer inn á þennan lista.
Gripla er alþjóðlegur vettvangur fyrir rannsóknir á sviði íslenskra og norrænna fræða, einkum handrita- og textafræða, bókmennta og þjóðfræða. Við mat á tímaritum er horft á alþjóðlega stöðu ritsins og fræðanna sem þar er fjallað um, áhrif og að sjálfsögðu gæði ritrýni og ritstjórnar. Með skráningunni kemst Gripla í hæsta gæðaflokk fræðitímarita og því felst í henni mikil alþjóðleg viðurkenning fyrir þau fræðastörf sem stunduð eru á Árnastofnun og það fræðasamfélag sem stofnunin er hluti af.