Gripla, alþjóðlegt ritrýnt ISI-tímarit Árnastofnunar um handrita-, bókmennta- og þjóðfræði, er komin út með ellefu fræðiritgerðum (tveimur á íslensku og níu á ensku með ágripum á báðum málum) og útgáfum stuttra texta.
Í fyrstu grein Griplu 35 fjallar Tom Lorenz um uppskafninga en svo nefnast handrit þar sem upprunalegt letur hefur verið fjarlægt, skafið upp, og nýtt letur sett í staðinn. Oft var um endurnýtingu að ræða en stöku sinnum vísvitandi fölsun. Dæmi eru um að prentað hafi verið á uppskafninga og virðist það vera séríslenskt fyrirbæri. Höfundur leggur til að fyrirbærið verði skilgreint upp á nýtt, meðal annars til þess að hægt sé að greina á milli endurvinnslu bókfells og endurnýtingar texta í handriti. Á forsíðu Griplu er mynd úr handriti sem er uppskafningur.
Elín Bára Magnúsdóttir, Sigurður Ingibergur Björnsson og Steingrímur Páll Kárason fjalla í grein sinni um stílmælingar og hvernig þær megi nota til að rannsaka höfundareinkenni í einstökum sögum. Til að mynda leiðir nýleg stílmæling á Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar í ljós stílleg líkindi með henni og öðrum sögum í Sturlunga sögu. Í greininni er gerð höfundarannsókn á Þórðar sögu kakala sem mælist í mestri stíllegri nálægð við Íslendinga sögu af þeim sögum sem eru í Sturlungu. Greinarhöfundar komast að þeirri niðurstöðu að allt bendi sterklega til að Sturla Þórðarson sé höfundur Þórðar sögu kakala.
Tarrin Wills fjallar um styttingar og bönd í íslenskum handritum en lengi hefur verið talið að notkun styttinga í íslenskum handritum sé algengari en annars staðar og að notkun þeirra hafi farið vaxandi á miðöldum. Í greininni er stuðst við megindlegar aðferðir og sérstaklega athugað hver munurinn sé á styttingum í bundnu og óbundnu máli. Kynnt er ný mæliaðferð til að mæla notkun styttinga og banda. Hún byggist á gögnum úr mörkuðum textaútgáfum og leiðir í ljós hversu mikið pláss sparast með notkun styttinga. Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu að notkun styttinga á Íslandi hafi farið vaxandi á miðöldum, verið talsverð fram yfir siðaskipti og síðan farið smám saman minnkandi fram á nítjándu öld.
Gottskálk Jensson skoðar fyrirsagnir postulasagna í handritum og prentuðum útgáfum. Hinn afkastamikli nítjándu aldar útgefandi sagnanna, Carl Richard Unger, samdi jafnan sjálfur titla á sögurnar en tók þá ekki upp úr handritunum. Titlar Ungers voru notaðir í handritaskrám Árnasafns án athugasemda og hafa þeir verið notaðir síðan þegar fjallað er um sögurnar í fræðiritum eða þær endurútgefnar.
Í ritgerð Benjamins Allport eru kenningar um ritunartíma Íslendingabókar Ara fróða endurskoðaðar með hliðsjón af hugsanlegum heimildum hans en fram að þessu hafa fræðimenn einkum tekið mið af því hvernig textinn var notaður af íslenskum höfundum á miðöldum. Sýnt er fram á að Ari hefur m.a. stuðst við skrá yfir látna úr Historia Hierosolymitana eftir Fulcher frá Chartres, sem bendir til þess að varðveitt gerð Íslendingabókar geti ekki hafa verið samin fyrir 1125 og að tímasetningin 1134–1135 sé líklegur ritunartími hennar.
Bianca Patria ræðst til atlögu við vísurnar í Egils sögu og uppruna þeirra. Hún beinir sjónum sínum að lausavísu sem fjallar um sjóorrustu þar sem skáldið tekst á við Eyvind nokkurn skreyju. Höfundur ber vísuna saman við aðrar heimildir um Eyvind, gerir grein fyrir tungutaki hennar, bragarhætti og stíl, sem hún ber saman við þær lausavísur í Egils sögu sem sýnt hefur verið fram á að séu ekki eftir Egil sjálfan. Niðurstaða hennar er sú að lausavísan um Eyvind skreyju sé ekki eftir Egil Skalla-Grímsson heldur annað skáld sem hún kallar Gervi-Egil og kann að vera sjálfur höfundur sögunnar, ef til vill Snorri Sturluson.
Peter Sigurdson Lunga fjallar um hlutverk Ólafs helga Haraldssonar í ættfræði norrænna dýrlinga en hann gegndi lykilhlutverki við að tryggja lögmæti krafna um völd allt fram á 13. öld. Í greininni er sýnt hvernig Ólafur helgi var nýttur til að réttlæta staðfestingu á síðari dýrlingum, og sjónum beint að Hallvarði helga Vébjarnarsyni og Magnúsi helga Orkneyjajarli og mögulegum eða ómögulegum ættartengslum þeirra við Ólaf helga. Höfundur sýnir hvernig ættfræði í hinum ýmsu heimildum birtir sameiginlega sýn á samfélag dýrlinga frá Noregi, Íslandi og Orkneyjum og ættartengsl þeirra.
Mario Martín Páez fjallar um tengslin milli örlaga og félagslegs siðferðis í fornnorrænum bókmenntum með sérstakri áherslu á Völsunga sögu. Höfundur kannar hvernig örlög, græðgi og eiðrof leiða sameiginlega til óhjákvæmilegra og óumflýjanlegra endaloka. Einnig er skoðað hvernig skyldurækni einstaklinga við fjölskylduna, samofin ágirnd, verður að eyðandi afli. Greinin er framlag til þeirrar umræðu sem nú fer fram um örlög í félagslegri mannfræði og tengdum greinum.
Martina Ceolin tekur í grein sinni Finnboga sögu ramma til endurskoðunar. Hún telur að sagan hafi verið vanmetin af fyrri fræðimönnum. Höfundur sýnir fram á að sagan er í raun mjög áhugaverð, meðal annars vegna þess að hún ber einkenni ólíkra sagna og er þannig á mörkum ýmissa sagnategunda. Sagan er skoðuð út frá kenningum um bókmenntagreinar en um leið er bygging textans athuguð í tengslum við handritin sem sagan er varðveitt í og samhengi þeirra. Að mati höfundar varpar varðveisla sögunnar í handritum ljósi á túlkun hennar.
Guðrún Brjánsdóttir rannsakar viðtökur málsháttakvæða og heilræðavísna í íslensku samfélagi síðari alda með því að rekja feril pappírshandritsins AM 427 12mo og skoða framleiðslueiningar þess út frá kenningum Kwakkels. Hún ber einnig saman texta nokkurra slíkra kvæða og tengsl þeirra við hina prentuðu kennslubók Hólar Cato frá 1620 til að sýna hvernig þessar bókmenntagreinar þróuðust og voru notaðar til uppfræðslu ungdóms og almennings.
Loks fjallar Lena Rohrbach um verk Eiríks Laxdals, Sögu Ólafs Þórhallasonar. Hingað til hafa rannsóknir fræðimanna (og rök fyrir því að hér sé um eins konar frumskáldsögu að ræða) einkum beinst að efni sögunnar en í þessari grein fjallar höfundur um efnislega textagerð sögunnar. Til þess notar hún greiningu og hugtök Gérard Gennettes og sýnir fram á að sagan fellur ekki aðeins þematískt inn í íslenska fornsagnahefð, sem og samtímalega bókmenntahefð, heldur sýnir um leið ákveðna sérstöðu gagnvart þessum þáttum. Lena telur að höfundur Ólafs sögu Þórhallasonar noti háþróaða frásagnartækni, fjölda sjónarhorna, óskýr mörk milli texta og hliðartexta, og fleira, til þess að grafa undan hefðbundnum frásögnum og afbyggi þannig skynjun lesenda en að mati höfundar er þessi afbygging kjarninn í Ólafs sögu Þórhallasonar.
Gripla kemur út á prenti einu sinni á ári en er jafnframt í opnu aðgengi á gripla.arnastofnun.is. Efni Griplu hefur verið skráð í gagnagrunna Thomas Reuters (Clarivate–Web of Science) frá 2010 og Elsevier (Scopus) frá 2011, og árið 2022 var gengið frá samningi við EBSCO-efnisveituna um miðlun Griplu.
Ritstjórar eru Margrét Eggertsdóttir (margret.eggertsdottir@arnastofnun.is) og Þórunn Sigurðardóttir (thorunn.sigurdardottir@arnastofnun.is).