Ritstjórar: Gísli Sigurðsson og Viðar Pálsson. 2012. 384 bls.
ISBN: 978 9979 654 24 1
Verð: 4.900 kr.
Gripla er til sölu í Bóksölu stúdenta og víðar. Háskólaútgáfan annast dreifingu.
Gripla er mikil að vöxtum að þessu sinni, 11 ritrýndar greinar auk samtínings á tæplega 400 síðum. Árni Heimir Ingólfsson rekur erlendan uppruna fimm söngva Melódíu (Rask 98), Helgi Þorláksson tilnefnir Þorstein böllótt sem safnanda Sturlungu í stað Þórðar Narfasonar og setur tilurð verksins í hugmyndafræðilegt samhengi, Orri Vésteinsson varpar ljósi á Kirknatal Páls biskups og skýrir hlutverk þess í stjórnsýslu biskupa uns það úreltist með tilkomu máldagabóka stólanna, Gottskálk Jensson rekur elstu latínuskrif um Þorlák helga og lýsir hlut þeirra í helgun biskupsins, Karen Bek-Pedersen skýrir nærveru Mikaels erkiengils í frásögnum af Síðu-Halli, Susanne Miriam Arthur færir rök að því að hlutur kvenna í eigendasögu og miðlunarsögu íslenskra handrita fyrr á öldum sé stórlega vanmetinn, Sigurjón Páll Ísaksson veltir upp þeim möguleika að Snorri Sturluson standi allt í senn að baki Morkinskinnu, Fagurskinnu og Heimskringlu, Þórdís Edda Jóhannesdóttir sýnir með nákvæmum handritasamanburði að Lbs 1199 4to ber að leggja til grundvallar útgáfu síðustu vísna Sigurdrífumála, enda standi texti þess nær Konungsbókartexta en þau handrit önnur sem jafnan hefur verið stuðst við; greininni fylgir útgáfa vísnanna, Lisbeth H. Torfing birtir stutta skýringargrein við lýsingu Þrymskviðu á gervi Þórs „Enn á briósti breiða steina“, Eiríkur Rögnvaldsson, Anton Karl Helgason, Einar Freyr Sigurðsson og Joel C. Wallenberg lýsa gerð og notkunarmöguleikum Sögulega íslenska trjábankans, gagnagrunni um íslenskt ritmál aftur til 12. aldar og Gísli Baldur Róbertsson rýnir í handrit Jóns Þorleifssonar á Stað á Snæfjallastönd. Í Samtíningi svarar Lars Lönnroth ádrepu Daniels Sävborgs úr fyrra hefti um túlkun Íslendingasagna og einkum Njálu, Andrea de Leeuw van Weenen heldur á loft tilgátu Stefáns Karlssonar um uppruna og merkingu orðsins edda/Edda og Einar G. Pétursson minnist Jóns Marínós Samsonarsonar.
Gripla er ritrýnt tímarit sem kemur út einu sinni á ári. Það er alþjóðlegur vettvangur fyrir rannsóknir á sviði íslenskra og norrænna fræða, einkum handrita- og textafræða, bókmennta og þjóðfræða. Birtar eru útgáfur á stuttum textum, greinar og ritgerðir og stuttar fræðilegar athugasemdir. Greinar skulu að jafnaði skrifaðar á íslensku en einnig eru birtar greinar á öðrum norrænum málum, ensku, þýsku og frönsku. Greinum og útgáfum (öðrum en stuttum athugasemdum o.þ.h.) fylgir stuttur útdráttur á öðru máli. Hverju bindi Griplu fylgir handritaskrá.
Tekið er við greinum til birtingar í Griplu 24 (2013) fram til 1. apríl 2013. Vinsamlegast sendið tilskrif til ritstjóra Griplu 2013, Viðars Pálssonar (vp@hi.is) eða Jóhönnu Katrínar Friðriksdóttur (jkf@hi.is), og gætið frágangsleiðbeininga á heimasíðu stofnunarinnar.