Skip to main content

Fréttir

Gripla 21 (2010) komin út

Gripla er alþjóðlegt fræðitímarit Árnastofnunar á sviði íslenskra og norrænna fræða. Hún hefur komið út frá því skömmu eftir að fyrstu handritin komu heim frá Danmörku árið 1971; í fyrstu óreglulega en síðar á hverju ári. Greinar eru ýmist á íslensku, öðrum Norðurlandamálum, þýsku, ensku eða frönsku. Útdrættir á ensku fylgja öllum greinum. Með greinum á öðrum málum en íslensku fylgir einnig íslensk samantekt. Núverandi ritstjóri Griplu er Gísli Sigurðsson.

Ólafur Halldórsson

Að þessu sinni birtast 11 ritrýndar greinar
í Griplu, auk stuttgreinar eftir Ólaf Halldórsson um Landnám Þórólfs Mostrarskeggs og Auðar djúpúðgu. Þetta eru allt greinar sem geyma viðamiklar frumrannsóknir í

tengslum við útgáfur stakra texta, útgáfusögu og skrifara síðari alda, handrita- og bókmenntafræði, hugmyndasögu og aldur fornkvæða.

Fyrsta greinin er eftir Bjarna heitinn Einarsson sem vann að útgáfum ólíkra gerða Egils sögu síðustu árin sem hann lifði. Hér fjallar hann um aðferðir Guðmundar Magnússonar við útgáfu Egils sögu á vegum Árnanefndar árið 1809, hvernig hann fyllti í eyður Möðruvallabókar og lagfærði kviður Egils.

Susanne Miriam Fahn og Gottskálk Jenssyni hefur loks tekist að lesa allt lofkvæðið um heilagan Þorlák, sem var skrifað á latínu í handrit frá miðri 14. öld, AM 382 4to. Þetta handrit er eina heimildin um B-gerð Þorláks sögu helga. Þau birta textann ásamt þýðingu á ensku og fjalla rækilega um kvæðið, handritið og B-gerð sögunnar sem þau tengja við Berg Sokkason. Kvæðið hefur þrisvar áður verið gefið út með ófullkomnum hætti en birtist nú óbrjálað í fyrsta sinn í meira en 300 ár.

Kirsten Wolf gefur út eina af þremur gerðum sögunnar af heilagri Margrétu af Antíokkíu (Margrétar sögu II) og byggir þá útgáfu að hluta á óbirtum rannsóknum Peter Rasmussen á handritum sögunnar. Margrét var með ástsælustu miðaldadýrlingum og eftir siðbreytingu gengu sögur af henni ennþá á milli fólks í smáum handritum sem þótti gott að hafi nærri við barnsfæðingar.

Lasse Mårtensson fjallar um yfirlitið yfir Háttatal í Uppsala Eddu. Hann sýnir fram á hlutverk yfirlitsins og snýr við niðurstöðu Finns Jónssonar frá 1931um að það byggi eingöngu á texta Uppsala Eddu. Í staðinn færir Lasse rök fyrir að yfirlitið styðjist við annað forrit en texti Háttatals að öðru leyti.

Michael Chesnutt rannsakar efnisskipan og varðveislusögu Möðruvallabókar. Hann telur að kverin í handritinu hafi upphaflega verið hugsuð sem sjálfstæðar söluvörur og að hin metnaðarfulla uppsetning Íslendinga sagna sem fram kemur í handritum um miðja 14. öld sé til marks um vaxandi styrk höfðingja og áhuga þeirra á að einoka hina hefðbundu sögu.

Heimir Pálsson skrifar um vísur og dísir Víga-Glúms og gerir tilraun til að skýra allar vísurnar sem Glúmi eru eignaðar án þess að grípa til leiðréttinga á texta Möðruvallabókar að sögu hans. Heimir skoðar forneskjuna í hugmyndum vísnanna, einkum hvernig goðfræðilegar kvenverur birtast þar án mikillar aðgreiningar á dísum, ásynjum og valkyrjum.

Jamie Cochrane rekur frásagnir ólíkra heimilda af Síðu-Halli og sýnir fram á að þær geymi að mörgu leyti heilsteypta mynd af ættum hans og ævi. Þetta skýrir Jamie þannig að sögur um Síðu-Hall hafi mótast og verið vel þekktar á munnlegu stigi enda þótt sjálfstæð saga af honum hafi aldrei verið skrifuð. Dæmi Síðu-Halls telur Jamie upplýsandi fyrir hugsanlega sköpunarsögu þeirra Íslendingasagna sem þó voru ritaðar.

Álfrún Gunnlaugsdóttir gerir rækilega grein fyrir sögu Jakobs postula sem Jakobsvegurinn til Santiago de Compostela er kenndur við. Þrjár íslenskar sögur af honum eru til og fjallar Álfrún um sérstöðu hverrar um sig og ber Jarteiknabók Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs í Skarðsbók postulasagna sérstaklega saman við latínutextann í einni af þjóðargersemum Spánar: Codex Calixtinus.

Árni Einarsson veltir fyrir sér hvort sólarsteinninn hafi verið tæki eða tákn á miðöldum og rýnir í tengslum við það í Rauðúlfs þátt og Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar. Árni bendir á að þessir textar leiki sér með tákngildi sólarsteinsins og því séu þeir varasamir sem heimildir um raunveruleikann. Sólarsteina sé þó getið í máldögum kirkna og eins klausturs og því erfitt að horfa framhjá tilvist þeirra – en það sé oftúlkun heimilda að bendla slíka steina við siglingar víkinga.

Haukur Þorgeirsson gerir grein fyrir samfelldri hefð fornyrðislags í íslenskum kveðskap framyfir siðbreytingu. Hann ræðst síðan í að aldursgreina Gullkársljóð og Hrafnagaldur, sem aðeins eru varðveitt í handritum frá 17. öld og síðar, og kemst að því með málsögu- og bragfræðilegum rökum að Gullkársljóð geti verið frá miðri 14. öld. Með sömu rökum tímasetur Haukur Hrafnagaldur eftir siðbreytingu og tengir hann að auki við áhuga 17. aldar manna á galdri og annarri forneskju. Sérstakur fengur er að þessari niðurstöðu því að hin síðari ár hefur aldur Hrafnagaldurs verið mjög til opinberrar umræðu.

Í síðustu ritrýndu greininni í Griplu fjallar Gísli Baldur Róbertsson um Bjarna Jónsson, lögbókarskrifara á Snæfjallaströnd. Þekkt eru 9 handrit með hans hendi frá 17. öld en sjálfur segist hann hafa skrifað a. m. k. 18 lögbækur og eru þær flestar glataðar. Minna hefur verið vitað um manninn að baki en þar bætir Gísli Baldur töluverðu við, dregur m. a. fram yfirhylmingar og klíkuskap í kringum nauðganir sem vinnukona Bjarna kærði hann fyrir – sem leiddi til sektardóms Ara í Ögri á dómþingi í Unaðsdal 11. apríl 1635 þrátt fyrir staðfasta neitun Bjarna sjálfs.

Gripla er til sölu á Árnastofnun í Árnagarði og hjá Háskólaútgáfunni sem sér um dreifingu.