Út er komið hjá De Gruyter-forlaginu greinasafnið Paper Stories – Paper and Book History in Early Modern Europe í ritröðinni Materiale Textkulturen. Ritið hefur að geyma 16 fræðigreinar auk inngangs ritstjóra og eftirmála. Í ritinu er fjallað um notkun, framleiðslu og útbreiðslu á pappír í efnismenningu árnýaldar í Evrópu. Greinarnar eru niðurstöður rannsókna bæði erlendra og innlendra fræðimanna auk inngangs ritstjóra sem eru Silvia Hufnagel, Þórunn Sigurðardóttir og Davíð Ólafsson.
Bókin er afurð tveggja viðamikilla rannsóknarverkefna sem hafa verið starfrækt síðustu ár og eru fjármögnuð úr Rannsóknasjóði. Annars vegar er um að ræða verkefnið „Pappírsslóð rakin. Efniviður íslenskra bóka og handrita frá 16. og 17. öld − frá pappírsframleiðslu til bókasafna“ undir stjórn Þórunnar Sigurðardóttur, rannsóknarprófessors við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hins vegar verkefnið „Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking“ sem hlaut Öndvegisstyrk Rannsóknajóðs árið 2018. Verkefnisstjóri þess var Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Háskóla Íslands.
Ritið er jafnframt afrakstur samnefndrar alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík vorið 2022 á vegum verkefnanna tveggja í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Þjóðminjasafn Íslands.
Bókin er gefin út í prentuðu formi og bundin í hörð spjöld en er jafnframt aðgengileg á rafrænu formi í opnum aðgangi.