Skip to main content

Fréttir

Greinakall − Orð og tunga

Óskað er eftir greinum til birtingar í 25. hefti tímaritsins Orð og tunga (2023). Frestur til að skila greinarhandritum er til 1. september 2022.   

Að þessu sinni verður sjónum einkum beint að blótsyrðum og bannorðum. Fræðimenn sem héldu erindi á alþjóðlegu málþingi um blótsyrði (SwiSca 7) eru sérstaklega hvattir til að senda inn greinar sem byggjast á þeim. Eins og áður er þó einnig tekið við greinum sem falla undir önnur áherslusvið tímaritsins. 

Orð og tunga er ritrýnt tímarit sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefur út árlega. Birtar eru fræðilegar greinar á íslensku, ensku og norrænum málum sem lúta að málfræði og málnotkun en sérstök áhersla er lögð á greinar um orðfræði, orðabókafræði, nafnfræði, íðorðafræði og málræktarfræði.   

Hámarkslengd greina er 8000 orð. Upplýsingar um skil á handritum, frágang o.s.frv. er að finna á vefsíðu tímaritsins. Á síðunni má einnig finna efnisyfirlit og útdrætti eldri árganga.   

Með því að senda inn handrit lýsir væntanlegur höfundur sig samþykkan því fyrirkomulagi að greinin verði birt samtímis á prenti og í rafrænni gerð.   

Vinsamlegast hafið samband við ritstjóra ef fleiri spurningar vakna.  

Ellert Þór Jóhannsson og Helga Hilmisdóttir ritstjórar.  

ordogtunga@arnastofnun.is