Skip to main content

Fréttir

Góssið hans Árna – Erindaröð í vetur

Í tilefni af því að handritasafn Árna Magnússonar er nú á sérstakri varðveisluskrá UNESCO verða flutt erindi um eitt handrit í hádegi annan hvern miðvikudag í vetur. Erindin verða haldin í bókasal Þjóðmenningarhússins frá kl. 12.15 - 12.45.

Það handrit sem er efni erindisins hverju sinni verður haft til sýnis í glerskáp á salnum meðan á erindinu stendur og í 45 mínútur eftir það svo að gestum gefist kostur á að berja handritið augum.

Röðinni verður hleypt af stokkunum laugardaginn 22. október að sendiherra Dana viðstöddum. Það gerir Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem og flytur erindið: Bók handa Helgu — Kaþólsk kvæðabók með hendi siðbótarmanns: AM 622 4to.