Skip to main content

Fréttir

Gömul orðabók lifnar við

Á sumrin fyllist Árnastofnun af námsmönnum sem taka þátt í rannsóknarverkefnum á vegum fastra starfsmanna stofnunarinnar og sumarið 2019 er þar engin undantekning. Á starfsstöðinni á Laugavegi 13 er núna að störfum um tugur námsmanna sem vinnur að þremur verkefnum. Eitt af þessum verkefnum lýtur að því að gera Orðabók Sigfúsar Blöndals aðgengilega á stafrænu formi. Orðabókin kom út á árunum 1920-1924 og viðbætir við hana var gefinn út 1963 en fram að þessu hefur hún ekki verið til í vefútgáfu.

Verkefnið er unnið á vegum Íslensks-dansks orðabókarsjóðs og stefnt er að opnun orðabókarinnar á vordögum 2020 en þá verða einmitt liðin 100 ár frá því að hún kom fyrst út.

Sumarstarfsmennirnir sem vinna að verkefninu eru Árni Davíð Magnússon, Bolli Magnússon, Oddur Snorrason og Salome Lilja Sigurðardóttir.

Verkefnisstjórar eru Halldóra Jónsdóttir, Steinþór Steingrímsson og Þórdís Úlfarsdóttir.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vef Árnastofnunar: https://www.arnastofnun.is/is/ordabok-sigfusar-blondals