Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur frá árinu 2018 valið orð ársins á grundvelli gagna sem stofnunin safnar um málnotkun árið um kring. Tölfræðilegum aðferðum er beitt til að velja tíu orð sem koma til greina og með hliðsjón af gögnunum er orð ársins valið. Orðin tíu sem komu til greina við val á orði ársins 2023 eru: mannúðarhlé, hugvíkkandi, dyggðaskreyting, menningarnám, sjálfsvinsemd, vistkjöt, mömmuskömm, samkenndarþreyta, -frí sem síðari liður í samsettum orðum og gervigreind(in) sem jafnframt var valið orð ársins.
Undanfarin tvö ár hefur ný gervigreindartækni sem byggir á marglaga tauganetum vakið mikla athygli. Tauganetin eru stærðfræðilíkön sem geta geymt og unnið með myndir eða texta. Spjallmennið ChatGPT var mest áberandi í umræðunni en það notar stórt mállíkan til að greina og búa til texta. Myndgerðarforritin DALL-E 2, Midjourney og Stable Diffusion voru líka mikið í umræðunni.
Íslenska orðið gervigreind er ekki nýtt af nálinni. Elsta dæmið sem við fundum er rétt rúmlega 50 ára gamalt og kemur fram í íslenskri þýðingu Halldórs Halldórssonar á bók Noams Chomsky Mál og mannshugur. Það er u.þ.b. 15 árum eftir að farið var að tala um artificial intelligence í ensku. Í tímans rás hafa ýmis önnur orð komið fram í þeirri viðleitni að íslenska hugtakið en hafa ekki náð að festa sig í sessi. Þá er nokkuð áberandi í gögnum okkar að notaður sé greinir þegar talað er um þessa nývinsælu gervigreindartækni og talað um gervigreindina. Vangaveltur um hvers vegna það skyldi vera og ýmislegt annað sem tengist gervigreind og vali á orði ársins má lesa í áhugaverðum pistli sem birtur hefur verið á vefritinu hugrás.is.