Skip to main content

Fréttir

Gæðaúttekt á Árnastofnun

Gæðaráð íslenskra háskóla hefur lokið fyrstu úttekt sinni á starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í úttektinni beinir Gæðaráðið sjónum að skipulagi og mannauði stofnunarinnar, rannsóknarstarfi, söfnum hennar og stafrænum gögnum og tengslum við samfélagið.

Stofnunin óskaði eftir úttekt Gæðaráðsins á haustdögum 2021 í tengslum við vinnu við nýja stefnu og flutning stofnunarinnar í Hús íslenskunnar. Úttektin byggist á sjálfsmatsskýrslu Árnastofnunar. Auk þess heimsótti sérstaklega skipuð úttektarnefnd Gæðaráðsins stofnunina í byrjun apríl 2022 þar sem fundað var með forstöðumanni, sviðsstjórum, fulltrúum starfsmanna og nemenda, stjórnarmönnum auk utanaðkomandi hagsmunaaðilum og samstarfsaðilum.

Niðurstöður úttektarnefndar voru mjög jákvæðar um starfsemi stofnunarinnar. Starfsfólk hennar væri mjög áhugasamt og traust og rannsóknir stofnunarinnar nytu mikillar virðingar bæði á landsvísu og á alþjóðavettvangi. Ytri hagsmunaaðilar kynnu að meta þá sérfræðiþekkingu sem stofnunin býr yfir, sterka forystu og virkt starfsfólk sem tæki virkan þátt í innlendu og alþjóðlegu samstarfi og tengslaneti. Stofnunin nyti mikillar virðingar í íslensku samfélagi. Tækifæri væru þó til að auka sýnileika Árnastofnunar og fá enn meiri viðurkenningu á rannsóknum og starfsemi hennar erlendis. En þetta ylti einnig á fjármagni til stofnunarinnar.

Gæðaráð bendir sérstaklega á þau spennandi tækifæri sem skapast þegar stofnunin flytur í nýtt hús. Aðgengi almennings að nýju húsnæði myndi gera stofnuninni kleift að auka tengsl hennar við almenning. En flutningurinn gæfi einnig tækifæri til að huga að og endurskoða regluverk og skipulag sem stofnunin starfar undir til að styðja við öfluga forystu forstöðumanns. Gæðaráðið leggur áherslu á að ný stefna stofnunarinnar sem er í vinnslu hafi skýr markmið um rannsóknir; söfn og stafræna innviði; alþjóðavæðingu og útrás og miðlun.

Skýrsluna fá finna hér.

Úttektarnefnd
Ljósm.: SJS