Skip to main content

Fréttir

Fyrirlestur um ljóðaþýðingar úr íslensku á japönsku

 

Nobuyoshi Mori, prófessor við Tokaiháskóla í Japan, flytur fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, fimmtudaginn 7. mars í stofu 101 í Odda, kl. 16. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „Vandinn að þýða íslensk ljóð á japönsku“. 

Mori Nobuyoshi.


Prófessor Mori hefur þýtt Kormákssögu og Hallfreðarsögu á japönsku og nýlega lauk hann við þýðingar á ljóðum nokkurra samtímaskálda. Í erindinu fjallar hann um mismun tungumálanna og mismundandi ljóðhefðir og þann vanda sem er við að fást þegar snúa á ljóðum úr íslensku á japönsku.

Prófessor Mori stundaði nám í rússnesku og germönskum málum við Tokíóháskóla erlendra mála og í norsku við Óslóarháskóla. Hann hefur kennt norsku og íslensku um langt árabil við Tokaiháskóla. Hann var forseti Norðurlandadeildar skólans á árunum 2000–2005 og formaður Félag íslenskra fræða í Japan 2004–2005. Hann hefur meðal annars gefið út kennslubók í norsku og íslenskan orðalista á japönsku.

Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku og fer fram í stofu 101 í Odda fimmtudaginn 7. mars kl. 16. Allir eru velkomnir.