Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Í kjölfar þess fór fram umræða þar sem þingmenn lýstu yfir ánægju með frumvarpið og var því síðan vísað til umfjöllunar í menntamálanefnd Alþingis. Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að markmið frumvarpsins sé að festa í lög stöðu íslenskrar tungu. Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir að íslenskt táknmál verði viðurkennt í lögum sem fyrsta mál þeirra sem eru heyrnarlausir, heyrnarskertir, daufblindir og afkomendur þeirra.