Fréttabréf Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í nóvember hefur verið sent þeim sem stofnunin hefur á netfangaskrá sinni en það má einnig lesa á vefnum. Þar má m.a. lesa um viðburði sem haldnir eru til heiðurs merkismönnum. Guðvarður Már Gunnlaugsson flytur hádegiserindi á fæðingardegi Árna Magnússonar (1663–1730), 13. nóvember, sem hann nefnir Fjögur frímerki og handrit. Sama dag, 13. nóvember, lýkur skráningu á alþjóðlega ráðstefnu um Sturlu Þórðarson (1214–1284) sem haldin verður 27.–29. nóvember í tilefni af því að 800 ár eru liðin frá fæðingu hans. Einnig er sagt frá degi íslenskrar tungu sem er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, og dagskrá 50 ára afmælismálþings Íslenskrar málnefndar og hátíðardagskrár mennta- og menningarmálaráðuneytis 15. nóvember í Iðnó birt.
Stofnunin gefur út rafrænt fréttabréf til að miðla upplýsingum um starf stofnunarinnar, nýjar útgáfur, fyrirlestra, rannsóknarverkefni, viðburði og fleira. Níunda tölublað ársins 2014 hefur verið sent þeim sem stofnunin hefur á netfangaskrá sinni. Tölublaðið má einnig lesa á vefnum.